Búa sig undir að Trump snúi aftur

Samskipti Þjóðverja og margra Evrópuríkja við fyrrum forsetann voru brösótt.
Samskipti Þjóðverja og margra Evrópuríkja við fyrrum forsetann voru brösótt. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa komið upp diplómatísku sambandi við fólk á vegum Donalds Trump í viðleitni sinni til að koma í veg fyrir að hugsanlegt kjör hans til forseta Bandaríkjanna komi þeim í opna skjöldu, eins og það gerði árið 2016.

Trump talaði jafnan niður til Þjóðverja í forsetatíð sinni. Sagði hann meðal annars að Þjóðverjar væru „sníkjudýr“ sem lifðu á Bandaríkjamönnum og að réttast væri að hætta að flytja inn þýska bíla svo Þjóðverjar myndu hætta að „notfæra sér“ Bandaríkin.

Þá sagði Trump að Þýskaland væri stjórnað af Rússum sökum þess hve Þjóðverjar væru háðir orkuinnflutningi frá Rússum.

Þjóðverjar hafa látið Úkraínumönnum í té Leopard-skriðdreka til að takast …
Þjóðverjar hafa látið Úkraínumönnum í té Leopard-skriðdreka til að takast á við Rússa. Bandaríkjamenn hafa þó flutt langsamlega mest af hergögnum til Úkraínumanna. AFP

Hefði ekki lifað af annað kjörtímabil 

Sumir stjórnmálaskýrendur hafa sagt að samband Bandaríkjanna og Þjóðverja hefði að líkindum ekki lifað af annað kjörtímabil hjá hinum umdeilda fyrrverandi forseta.

Andstæðingur Trump í kosningunum á næsta ári verður að líkindum hinn 80 ára gamli Joe Biden en Trump verður 76 ára gamall.

Telja sumir að borin von sé fyrir Biden að endurtaka kosningasigurinn frá 2020. Ekki síst þar sem efnahagsástandið í Bandaríkjunum hefur mátt muna fífil sinn fegurri eins og víðar í hinum vestræna heimi.

Mikið undir hjá Úkraínumönnum 

Verði Trump kosinn að nýju má gera ráð fyrir því að það hefði slæm áhrif á stríðsrekstur Úkraínumanna gegn Rússum. Hafa þeir reitt sig á vopnainnflutning frá Bandaríkjunum sem þykir hafa gegnt lykilhlutverki í vörn Úkraínumanna í landinu.

Mestar líkur eru á því að Trump muni stöðva hergagnaflutning til landsins með öllu. Þá þykir Trump afar neikvæður gagnvart NATO og því sem Atlantshafsbandalagið stendur fyrir.

Sagt er að Trump líki vel við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.
Sagt er að Trump líki vel við Vladimir Pútín Rússlandsforseta. AFP

Hlynntur því að Rússar fái landsvæði 

Hefur Trump látið hafa eftir sér að undanförnu að hann sýni stríðsbrölti Rússa skilning og að hann gæti endað stríðið á 24 klukkustundum með einföldum samningaviðræðum. Telur hann rétt að Rússar fái í sinn hlut ákveðin landsvæði í Úkraínu.

Eins þykir það sitja í Donald Trump þegar Volodimír Selenskí Úkraínuforseti neitaði að opna rannsókn á málefnum orkufyrirtækisins Burisma þar sem sonur Joe Biden, Hunter Biden, starfaði.

Er Trump sagður þekktur fyrir hefnigirni sína, í umfjöllun Spiegel sem tekur málið fyrir.

Úkraínumenn eiga mikið undir forsetakosningunum á næsta ári.
Úkraínumenn eiga mikið undir forsetakosningunum á næsta ári. AFP

Líkur á viðskiptastríði aukast 

Eins þykja líkur á viðskiptastríði á milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna aukast þar sem Trump lagði mesta áherslu á að styrkja bandarískan iðnað og var óhræddur við að beita tollum á vörur og þjónustu sem hann taldi Bandaríkjamenn geta veitt innanlands.

Joe Biden hefur talsvert undið ofan af tollunum frá hlið Bandaríkjanna og Evrópuríki hafa gert það sama þó tollar séu almennt tíðari og hærri en þeir voru fyrir stjórnartíð Trump. 

Eins þykir afar ólíklegt að Trump muni standa við þær skuldbindingar sem Biden hefur undirritað fyrir hönd Bandaríkjamanna í loftslagsmálum. 

Segja menn innan þýsku stjórnarinnar líklegt að stjórnarfar Trump yrði jafnvel enn óheflaðra en það var í fyrri forsetatíð auðjöfursins. Tilraunir diplómata til að setja sig í samband við Trump þykja ekki síst vera til þess fallnar að vita hverjar áætlanirnar séu í hinum og þessum málaflokkum.

Þannig verði betur hægt að búa sig undir það sem vænta má. Eitt þykir þó ljóst. Óvissa mun aukast og fyrirsjáanleiki heimsmálanna minnka.

mbl.is

Bloggað um fréttina