Trump sakaður um ítrekaðar rangfærslur í viðtali

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Joseph Prezioso

Miðlar vestanhafs keppast nú við að leiðrétta rangfærslur sem Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti hélt fram í viðtali við CNN-fréttastofuna í gærkvöldi. Hafa miðlar á borð við New York Times, Washington Post og CNN birt samantektir um fullyrðingar fyrrverandi forsetans sem ekki standast skoðun.

„Í rúman klukkutíma streymdu rangar og villandi fullyrðingar frá fyrrverandi forsetanum Donald Trump,“ segir í greiningu Glenn Kessler hjá Washington Post.

Viðtalið hefur vakið mikið umtal en í forsetatíð Trumps neitaði hann að ræða við fréttamenn CNN sem hann sagði skrifa falsfréttir.

Er forsetinn sagður hafa forðast að svara spurningum Kaitlan Collins, spyrils CNN, í gær og beitt útúrsnúningum. Þá gripu þau ítrekað fram í fyrir hvort öðru meðan á viðtalinu stóð og hefur Collins meðal annars verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki stöðvað fyrrverandi forsetann oftar af í rangfærslum.

Nokkrir hafi misst stjórn á sér

Í rúmlega klukkutíma löngu viðtali við CNN í gær tók Trump hanskann upp fyrir mótmælendurna sem tóku þátt í árásinni á þinghúsið 6. janúar árið 2021. 

Sagði hann Nancy Pelosi hafa borið ábyrgð á öryggisgæslu í Hvíta húsinu þann daginn.

Hann sagði „nokkra“ mótmælendur hafa misst stjórn á sér í árásinni. Hundruð mótmælenda hafa þó verið ákærðir fyrir ofbeldi gagnvart lögreglunni í árásinni og voru mótmælendurnir um 30 þúsund talsins.

Endurtók fullyrðingar um kosningasvindl

Þá þvertók hann fyrir að hafa tapað forsetakosningunum fyrir Joe Biden árið 2020.

„Það var svindlað í kosningunum og það er mikil synd að við þurftum að ganga í gegnum þetta. Ef þú horfir á True the Vote, þeir fundu milljónir atkvæða í myndavélum, í myndavélum ríkisstjórnarinnar, þar sem þeir voru að troða í kjörkassana,“ sagði Trump í gær.

Frá því að niðurstöður kosninganna lágu fyrir hefur Trump haldið því fram að um svindl væri að ræða. Engar sannanir eru fyrir þessum fullyrðingum. Munaði sjö milljónum atkvæða á frambjóðendunum tveimur. 

Kvaðst ekki þekkja Carroll

Innan við tveir sólarhringar eru liðnir frá því Trump var sakfelldur fyrir kynferðisbrot og ærumeiðingar gegn blaðamanninum E. Jean Carroll. Hann var sýknaður af nauðgunarkæru. Trump er þó enn í framboði fyrir næstu forsetakosningar.

Þegar Collins spurði út í niðurstöðu kviðdómsins kvaðst Trump ekki þekkja Carroll, þrátt fyrir að hafa verið myndaður með henni á sínum tíma.

Þá sagði hann að samkvæmt skoðanakönnunum hefði stuðningur við hann einungis aukist.

Vill ná sáttum í stríðinu

Þegar Collins spurði svo fyrrverandi forsetann hvort hann vildi að Úkraína færi með sigur af hólmi í stríðinu kvaðst forsetinn líta málið öðrum augum.

„Ég hugsa þetta ekki út frá því hvort einhver muni vinna eða tapa. Ég hugsa þetta út frá því að ná sáttum í málinu svo við getum hætt að drepa allt þetta fólk.“

Þá kvaðst hann geta bundið endi á stríðið á sólarhring væri hann sjálfur forseti. Hann var þó ekki fylgjandi því að Bandaríkjamenn ættu að halda áfram umfangsmiklum vopnasendingum. 

mbl.is