„Undirbúi“ sig vegna hrakandi heilsu leiðtogans

Alexsander Lúkasjenkó sást síðast á Rauða torginu í Moskvu á …
Alexsander Lúkasjenkó sást síðast á Rauða torginu í Moskvu á Sigurdeginum 9. maí. AFP/Gavril Grigorov

Hvítrússneski stjórnarastæðingurinn, Svetl­ana Ts­ík­hanovskaja, tísti í dag að Hvít-Rússar ættu að „undirbúa“ sig vegna hrakandi heilsu Al­ex­and­ers Lúka­sj­en­kós, forseta Hvíta-Rússlands.

„Margar sögusagnir hafa komist á kreik um heilsu Lúkasjenkós einræðisherra. Fyrir okkur þýðir það einungis eitt, við skulum vera undirbúin fyrir allar mögulegar aðstæður,“ tísti Ts­ík­hanovskaja. 

Hún nefndi að koma þyrfti í veg fyrir að Rússland blandaði sér í möguleg stjórnarskipti til þess að tryggja að Hvíta-Rússland verði lýðræði. 

 Lúkasjenkó er 68 ára gamall og hefur verið við völd síðan árið 1994. Hann hefur ekki látið sjá sig opinberlega í sex daga og ekki mætt á mikilvæga viðburði. 

Hann sást síðast á Rauða torginu í Moskvu á Sigurdeginum 9. maí en var ekki viðstaddur hádegisverðarboð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta sama dag. 

Rússneskir og hvítrússneskir blaðamenn sögðu Lúkasjenkó líta út fyrir að vera heilsuveilan. Þá ávarpaði hann ekki hvítrússneska hermenn á Sigurdeginum líkt og hefð er fyrir. Yfirvöld hafa ekki tjáð sig um fjarveru Lúkasjenkós. 

Ts­íkanovskaja var dæmd í 15 ára fangelsi í heimalandinu í mars fyrir að leiða mót­mæli gegn nú­ver­andi stjórn lands­ins. Hún verður viðstödd leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu sem hefst á morgun. 

mbl.is