Magnaðar nýjar myndir af flaki Titanic

Skipið liggur á hafsbotni og hefur gert það í rúma …
Skipið liggur á hafsbotni og hefur gert það í rúma öld. Mynd/Atlantic Productions/Magellan

Nú þegar 111 ár eru liðin frá því að RMS Titanic sökk, eru teknar að berast fyrstu háskerpu þrívíddarmyndirnar af flaki þessa risa sem eitt sinn tilheyrði skipafélaginu White Star Line.

Þessi gluggi inn í hyldýpi Atlantshafsins er fenginn úr alls 700 þúsund háskerpumyndum sem teknar voru úr tveimur djúpsjávarkafbátum. Tók það vísindamenn yfir 200 klukkustundir að fanga myndefnið.

Sést nú í fyrsta sinn með skýrum hætti þessi gamli risi þar sem hann hvílir á næstum 4 þúsund metra dýpi, og eru myndirnar hreint út sagt ótrúlegar.

Mynd/Atlantic Productions/Magellan

Vonast til að svara spurningum

Með myndefninu vonast vísindamenn til að átta sig betur á þeirri atburðarás sem leiddi til þessa mikla harmleiks. Er til að mynda ekki ljóst hvar ísjakinn mikli skall utan í skipið.

Ein kenning er sú að jakinn hafi farið utan í síðu skipsins. Önnur kenning segir jakann aftur á móti hafa skollið utan í mitt stefnið og hann síðan farið undir skipið að hluta. Þessar myndir gætu svarað þessari spurningu, og öðrum, í eitt skipti fyrir allt.

Vitað er að laust fyrir miðnætti 14. apríl 1912 sigldi Titanic á ísjaka. Einungis tveimur klukkustundum og 40 mínútum síðar var skipið sokkið. Með því fórust 1.514 manns, eða 68% þeirra sem voru um borð.

Mynd/Atlantic Productions/Magellan
Mynd/Atlantic Productions/Magellan
Mynd/Atlantic Productions/Magellan

Algjör þögn tók við

Síðustu skýru skilaboð Titanic voru send klukkan 1.45 eftir miðnætti:

„Vélarrými er fullt upp að kötlum.”

Um 32 mínútum síðar bárust allra síðustu skilaboðin, óklárað neyðarkall. Eftir það algjör þögn.

Talið er að loftskeytamenn hafi sent staðsetningu skipsins, stöðuskýrslu og neyðarkall allt þar til loftskeytaklefi þeirra missti afl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert