Epstein hótaði að fletta ofan af framhjáhaldi Gates

Í tölvupósti Espstein kom fram að hann gæti afhjúpað framhjáhaldið …
Í tölvupósti Espstein kom fram að hann gæti afhjúpað framhjáhaldið ef Gates héldi ekki tengslum við sig. Samsett mynd

Kynferðisafbrotamaðurinn og auðkýfingurinn Jeffrey Epstein hótaði að fletta ofan af framhjáhaldi milljarðamæringsins Bill Gates, meðstofnanda hugbúnaðarrisans Microsoft, eftir að hafa mistekist að sannfæra hann um að verða bakhjarl góðgerðarsjóðs sem Epstein hugðist stofna með JP Morgan Chase-bankanum.

Dagblaðið Wall Street Journal segir svo frá.

38 ára aldursmunur

Bill Gates á að hafa haldið við rússneska bridge-spilarann Mílu Antonóvu í kringum árið 2010 er hún var á þrítugsaldri. 38 ára aldursmunur er á Antonóvu sem fædd er árið 1993 og milljarðamæringnum Gates sem fæddur er árið 1955.

Epstein hitti Antonóvu árið 2013 og greiddi seinna skólagjöld hennar í forritunarnám í Bandaríkjunum.

Krafðist endurgreiðslu

Árið 2017, eftir að Epstein mistókst að sannfæra Gates að verða bakhjarl fyrirhugaðs góðgerðarsjóðs, sendi hann Gates tölvupóst þar sem hann krafðist endurgreiðslu vegna skólagjalda Antonóvu.

Í tölvupósti Espstein kom fram að hann gæti afhjúpað framhjáhaldið ef Gates héldi ekki tengslum við sig.

Epstein var árið 2006 sakaður um kynferðisofbeldi gegn stúlkum allt niður í 14 ára að aldri og játaði tveimur árum síðar að hafa leitað til og útvegað ólögráða ungmenni til vændis. Hann sat um tíma í fangelsi í Flórída og varð skráður kynferðisafbrotamaður.

Epstein var handtekinn árið 2019 vegna ákæru um mansal eftir að Miami Herald greindi frá tugum kvenna til viðbótar sem greindu frá misnotkun hans. Hann lést síðar sama ár í fangelsi á meðan hann beið réttarhalda og er talinn hafa framið sjálfsvíg.

Árangurslaus hótun

„Gates hitti Epstein aðeins vegna góðgerðarmála. Eftir að hafa ítrekað mistekist að draga Gates að borðinu, hótaði Epstein Gates án árangurs og bar fyrir sig gamalt samband Gates,“ hefur Wall Street Journal eftir talsmanni Gates.

Sjálfur hefur Bill Gates sagt að hann hafi nokkrum sinnum hitt Epstein til að ræða góðgerðarmál og að hann sjái mikið eftir því og kalli það mistök af sinni hálfu.

Antonóva neitaði að tjá sig um Gates og sagðist ekki hafa vitað hver Epstein var þegar þau hittust. 

„Ég hafði enga hugmynd um að hann væri glæpamaður eða hefði uppi annarlegar ástæður,“ sagði hún um Epstein. „Ég hélt bara að hann væri farsæll kaupsýslumaður sem vildi hjálpa. Ég hef andstyggð á Epstein og því sem hann gerði.“

„Reyndi að sparka í hann“

Bridge er eitt af eftirlætis áhugamálum Bill Gates. Hann spilaði við Anotonóvu en hún stofnaði bridge-klúbb í Bandaríkjunum áður en hún tók að sér ýmis störf hugbúnaðarverkfræðings í Norður-Kaliforníu.

Í myndskeiði sem birt var á veraldarvefnum árið 2010 lýsir Antonóva hvernig hún hitti Gates á bridge-móti og spilaði á móti honum. „Ég vann hann ekki en ég reyndi að sparka í hann,“ sagði hún í myndskeiðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert