Rannsaka hvort eitrað var fyrir tveimur Rússum

Sérstök deild innan þýsku lögreglunnar, sem rannsakar meðal annars hryðjuverk, …
Sérstök deild innan þýsku lögreglunnar, sem rannsakar meðal annars hryðjuverk, fer fyrir málinu. AFP/Thomas Kienzle

Þýska lögreglan rannsakar nú hvort eitrað hafi verið fyrir Rússum sem hafa þurft að flýja heimalandið vegna ofsókna, eftir að blaðamaður og aðgerðarsinni greindu frá veikindum eftir fund stjórnarandstæðinga í Berlín.

Sérstök deild innan lögreglunnar, sem rannsakar meðal annars hryðjuverk, fer fyrir málinu. 

„Rannsókn er hafin og er í gangi,“ sagði talsmaður þýsku lögreglunnar við AFP-fréttaveituna en neitaði að veita frekari upplýsingar. 

Rússneski rannsóknarmiðilinn, Agentstvo, greindi frá því í þessari viku að tveir Rússar sem sóttu fundinn í lok apríl hafi upplifað heilsufarsvandamál í kjölfarið. 

Fyrrverandi ólígarkinn, Mikhail Khodorkovskí, stóð fyrir fundinum en hann hefur gagnrýnt stjórn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. 

„Stingandi sársauki“ og „dofi“

Blaðamaðurinn, sem varð veikur í kjölfar fundarins, var nýkominn frá Rússlandi er hann sótti fundinn. Hann var fluttur á Charite-háskólasjúkrahúsið í Berlín þar sem stjórn­ar­and­stæðings­ins Al­ex­ei Navalní fékk aðhlynningu árið 2020 eftir að eitrað var fyrir honum. 

Hinn einstaklingurinn sem veiktist var Natalia Arno, sem stofnaði samtök sem berst fyrir frelsi Rússlands í Bandaríkjunum. Hún flúði Rússland fyrir tíu árum.

Arno greindi frá veikindunum á Facebook í vikunni og lýsti þeim sem „stingandi sársauka“ og „dofa“. Þá sagði hún að hún finni enn fyrir einkennum enn líði betur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert