Segja TikTok-bannið skerða málfrelsi

Bannið er sagt skerða málfrelsi Montanabúa.
Bannið er sagt skerða málfrelsi Montanabúa. AFP/Nicolas Asfouri

Samfélagsmiðillinn TikTok hefur nú lagt fram kæru til þess að reyna að stöðva fyrirhugað bann á notkun miðilsins í Montana-ríki í Bandaríkjunum. Ríkið var það fyrsta til þess að banna miðilinn þann 17. maí síðastliðinn.

TikTok heldur því fram að löggjöfin nýja, sem myndi taka gildi á næsta ári, sé brot á stjórnarskrárvörðum rétti til málfrelsis. Þá hefur miðillinn óskað eftir því að bandarískur alríkisdómstóll lýsi því yfir að löggjöfin sé í andstöðu við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Það er þó ekki aðeins samfélagsmiðillinn sem hefur lagt fram kæru vegna löggjafarinnar heldur einnig fimm íbúar Montana-ríkis. Íbúarnir slá allir í sama streng og TikTok og segja brjóta á rétti þeirra til málfrelsis.

1,4 milljónir króna á dag

Samkvæmt nýju löggjöfinni yrði það flokkað sem lögbrot í hvert sinn sem notandi færi inn á TikTok, væri boðinn valkosturinn að niðurhala Tiktok eða fá aðgang að forritinu. Hefði hvert brot í för með sér sekt upp á tíu þúsund dollara eða 1,4 milljónir króna fyrir hvern dag sem brotin eru framkvæmd.   

Apple og Google munu þurfa að fjarlægja forritið úr sínum smáforritaverslunum eða eiga mögulega yfir höfði sér dagsektir.

Ríkisstjórinn í Montana, repúblikaninn Greg Gianforte sagði í tilkynningu sinni á Twitter um nýju löggjöfina, að hann hefði með undirrituninni bannað „öll smáforrit sem bera persónuupplýsingar eða gögn til erlendra andstæðinga“. Tiktok sé bara eitt af mörgum forritum sem löggjöfin eigi við.

TikTok er í eigu kín­verska fyr­ir­tæk­is­ins ByteDance, en ásak­an­ir hafa verið uppi um að fyr­ir­tækið safni sam­an upp­lýs­ing­um um not­end­ur og komi þeim áfram til kín­verskra yf­ir­valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert