Uppþot á ársfundi Shell

Mótmælendur fyrir utan ársfund Shell.
Mótmælendur fyrir utan ársfund Shell. AFP

Umhverfissamtök á  borð við Greenpeace og fleiri fjölmenntu fyrir utan ársfund breska orkurisans Shell í dag.

Meira en 100 mótmælendur trufluðu fundinn meðal annars með framíköllum við ræðu forstjórans Wael Sawan og reyndu sumir mótmælenda að komast á svið fundarins. Krafa mótmælenda var að Shell gripi til róttækari aðgerða til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Margir mótmælendur voru í kjölfarið fjarlægðir af öryggisvörðum.

Stjórnarformaður Shell, Andrew Mackenzie, segist tregur til þess að taka upp róttækari stefnu í umhverfismálum og taldi slíkt geta veikt stöðu fyrirtækisins sem yrði til þess að Shell gæti síður gert heiminum gagn.

Afkoma Shell á síðasta ársfjórðungi hefur styrkst og hefur sömu sögu verið að segja hjá öðrum olíurisum líkt og BP, Chevron og ExxonMobil. Hátt olíuverð hefur skipt mestu í bættri afkomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert