Til­kynning DeSantis hófst á tækni­legum örðug­leikum

Elon Musk og Ron DeSantis áttu að ræða saman á …
Elon Musk og Ron DeSantis áttu að ræða saman á Twitter Space í kvöld. AFP

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, átti að tilkynna framboð sitt formlega í kvöld á opnu hljóðrými Twitter ásamt Elon Musk og David Sacks. Erfiðlega gekk að koma streyminu í gang og sendi DeSantis út framboðsmyndband sitt á meðan. 

Útsendingin sem átti að hefjast klukkan 22.00 á íslenskum tíma varð fljótt að engu en hljóðið stöðvaðist fljótlega eftir að útsending hófst. Reglulega mátti heyra Musk segja „þetta er komið í lag” eða „það er svo mikið af fólki“ stuttu áður en hljóðið fór á ný. Um fimm hundruð þúsund manns sóttu hljóðfundinn í fyrstu.

Að lokum var útsendingu hætt. Einhverjar tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma útsendingunni í gang aftur en virðist það ganga misvel. 

Nú virðist útsendingin ganga betur en hana má hlusta á með því að smella hér

Á meðan tæknivandræðin réðu ríkjum birti DeSantis framboðsmyndband sitt á Twitter en það má sjá hér að ofan. 

„Landamærin okkar eru hörmung, glæpir herja á borgirnar okkar, alríkið gerir það erfiðara fyrir fjölskyldur til þess að ná endum saman og forsetinn spriklar. En hnignun er val, velgengni er möguleg og frelsi er þess virði að berjast fyrir. Til þess að rétta skipið af þarf að koma heilbrigðri skynsemi að í samfélaginu okkar, koma á eðlilegu ástandi hjá samfélögunum okkar og heiðarleika í stofnanirnar okkar,“ segir DeSantis meðal annars í myndbandinu. Hann segir Flórída vera sönnun þess að allt þetta og meira til sé möguleiki.

„Við kusum staðreyndir fram yfir ótta, menntun fram yfir innrætingu, lög og reglu fram yfir óeirðir, við héldum öllu í skefjum þegar frelsið var undir. Við sýndum að við getum og verðum að endurvekja Ameríku. Við þurfum hugrekkið til að leiða og styrkinn til að vinna,“ sagði DeSantis

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna sendi einnig frá sér tíst og hæddist að misheppnaðri útsendingu Musk og DeSantis. Þar sagði hann „Þessi hlekkur virkar“ og setti inn hlekk á framboð sitt og Kamölu Harris. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert