Í gömlum skýrslum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem núna hafa verið birtar er greint frá mögulegum áformum um að ráða Elísabetu II. Bretlandsdrottningu af dögum á meðan á heimsókn hennar til bandaríska ríkisins Kaliforníu stóð árið 1983.
Þessari mögulegu ógn var fylgt eftir með símtali frá „manni sem sagði að dóttir sín hefði verið drepin á Norður-Írlandi með gúmmíkúlu”, að því er kemur fram í skýrslu FBI þar sem einnig er minnst á bar sem fólk hliðhollt Írska lýðveldishernum, IRA, sótti.
Drottningin og eiginmaður hennar Filippus prins heimsóttu vesturströnd Bandaríkjanna í febrúar og mars árið 1983 og gekk ferðalagið án vandkvæða.
Fjórum árum fyrr, árið 1979, drápu liðsmenn IRA Louis Mountbatten, síðasta ríkisstjóra Indlands og frænda Filippusar, í sprengjuárás.
Í skýrslu FBI kemur fram að maðurinn sagðist ætla að myrða drottninguna „annaðhvort með því að láta einhvern hlut falla niður af Golden Gate-brúnni á konungslegu snekkjuna Brittanie þegar hún siglir fyrir neðan” en ef það myndi ekki ganga sagðist hann „ætla að reyna að drepa Elísabetu drottningu þegar hún átti að heimsækja þjóðgarðinn Yosemite”.