Ætlaði að ráða Elísabetu drottningu af dögum

Elísabet Bretlandsdrottning á síðasta ári.
Elísabet Bretlandsdrottning á síðasta ári. AFP/Justin Tallis

Í gömlum skýrslum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem núna hafa verið birtar er greint frá mögulegum áformum um að ráða Elísabetu II. Bretlandsdrottningu af dögum á meðan á heimsókn hennar til bandaríska ríkisins Kaliforníu stóð árið 1983.

Þessari mögulegu ógn var fylgt eftir með símtali frá „manni sem sagði að dóttir sín hefði verið drepin á Norður-Írlandi með gúmmíkúlu”, að því er kemur fram í skýrslu FBI þar sem einnig er minnst á bar sem fólk hliðhollt Írska lýðveldishernum, IRA, sótti.

Drottningin og eiginmaður hennar Filippus prins heimsóttu vesturströnd Bandaríkjanna í febrúar og mars árið 1983 og gekk ferðalagið án vandkvæða.

Drápu Mountbattenn 1979

Fjórum árum fyrr, árið 1979, drápu liðsmenn IRA Louis Mountbatten, síðasta ríkisstjóra Indlands og frænda Filippusar, í sprengjuárás.

Í skýrslu FBI kemur fram að maðurinn sagðist ætla að myrða drottninguna „annaðhvort með því að láta einhvern hlut falla niður af Golden Gate-brúnni á konungslegu snekkjuna Brittanie þegar hún siglir fyrir neðan” en ef það myndi ekki ganga sagðist hann „ætla að reyna að drepa Elísabetu drottningu þegar hún átti að heimsækja þjóðgarðinn Yosemite”.

mbl.is