„Bjórþyrst“ áhöfn í landvistarleyfi

USS Gerald R. Ford á Óslóarfirði á þriðjudaginn.
USS Gerald R. Ford á Óslóarfirði á þriðjudaginn. AFP/Terje Pedersen

Bandaríska flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford, það stærsta sinnar tegundar í heiminum, yfirgefur Ósló í Noregi á mánudag eftir heimsókn þangað og siglir til Vesterålen þar sem það mun hefja heræfingar með norska flughernum.

Hafa þær fréttir gengið af áhöfn skipsins að hún hafi gengið „bjórþyrst til landvistarleyfis“ í Ósló og var víst vel tekið eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá.

Ekki eru þó allir á eitt sáttir um heimsókn þessa, fyrr í vikunni kallaði talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins heimsókn skipsins órökvísa valdasýningu Bandaríkjamanna. USS Gerald R. Ford er enda ekki eingöngu í kurteisisheimsókn, skipið er öðrum þræði komið til heræfinga með bandamönnum sínum í Atlantshafsbandalaginu. Slík heimsókn strýkur Rússum andhæris.

Norðmenn ánægðir með æfinguna

USS Gerald R. Ford gengur fyrir kjarnorku. Um borð í þessu stærsta flugmóðurskipi heims eru tveir kjarnaofnar. Norsk stjórnvöld gerðu kröfur um ítarlegar prófanir þess til jarteikna að engin geislavirkni læki úr skipinu. Áttu þær prófanir að fara fram fyrir, á meðan og á eftir Noregsheimsókn.

Þessi mynd sýnir gríðarlega stærð USS Gerald R. Ford í …
Þessi mynd sýnir gríðarlega stærð USS Gerald R. Ford í samanburði við skemmtiferðaskip. Flugmóðurskipið er töluvert fjær. AFP/Terje Pedersen

Í næstu viku tekur áhöfn USS Gerald R. Ford þátt í heræfingunni Arctic Challenge Exercise og hefur Eirik Kristoffersen, æðsti yfirmaður norska hersins, forsvarssjef eins og staða hans kallast, ekki farið í grafgötur með þá lyftistöng sem heimsókn Bandaríkjamanna er fyrir norska herinn.

„Gestirnir stjórna æfingaáætluninni. Okkar ætlun er að fá að æfa með varnarteymi flugmóðurskipsins og allar deildir hersins ætla sér að fá mikið út úr þessari æfingu,“ segir Kristoffersen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Full trú á varnargetu Norðmanna

Marc Nathanson, sendiherra Bandaríkjanna í Noregi, heimsótti USS Gerald R. Ford á þriðjudaginn og kvað bandarísk hernaðaryfirvöld hafa fulla trú á varnargetu Norðmanna. „Við höfum fulla trú á henni. Við treystum norska hernum, það er nú ein helsta ástæða þess að okkar stærsta orrustuskip er í heimsókn hér,“ segir sendiherrann.

Kristoffersen herstjóri kveður heimsóknina einstaka, norska flughernum gefist þar einstakt tækifæri til að æfa með gestunum enda er Arctic Challenge stærsta æfing flughers sem ráðin hafa verið lögð á um í Evrópu þetta árið.

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert