Börn gáfu sig fram eftir bruna í Sydney

Hér má sjá skjáskot úr myndskeiði af brunanum í gær.
Hér má sjá skjáskot úr myndskeiði af brunanum í gær. AFP/Michael Goode

Tvö þrettán ára gömul börn hafa gefið sig fram við lögregluna í Sydney í Ástralíu og játað að hafa verið viðriðin bruna sögufrægrar byggingar þar í borginni, gamallar hattaverksmiðju, í gær.

Frá þessu greinir lögregla borgarinnar í dag en eldurinn í hattaverksmiðjunni gömlu breiddist út í nágrannabyggingu sem rýma þurfti áður en slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins. Greindu vitni frá því að hafa séð hóp ungmenna forða sér á hlaupum frá húsinu síðdegis í gær og hafa tvö þeirra nú gefið sig fram.

Vilja heyra frá fleirum

„Tvö ungmenni gáfu sig fram á tveimur lögreglustöðvum seint í gærkvöldi,“ greinir Paul Dunstan aðstoðarvarstjóri frá í samtali við AFP-fréttastofuna.

Kvað hann lögreglu hafa rætt við ungmennin í gær og framburður þeirra varpað nokkru ljósi á gang mála. Hvetur lögreglan í Sydney nokkra aðra unglinga, sem viðstaddir voru þegar eldurinn kom upp, til að koma í fylgd forráðamanna sinna og ræða við lögreglu.

Logarnir í byggingunni blöstu við um mestalla Sydney í gær og hrundi efsti hluti byggingarinnar í eldhafi niður á götuna fyrir neðan. Stöðva þurfti alla umferð í nágrenninu á meðan slökkvilið borgarinnar barðist við eldinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert