Lögregla beitir táragasi á mótmælendur við aðalfund Total

Mótmælendur við aðalfund Total í París í dag.
Mótmælendur við aðalfund Total í París í dag. AFP

Lögregla beitti táragasi á mótmælendur við aðalfund franska orkurisans TotalEnergies í París í dag. Fyrirtækinu þykir ganga hægt að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa og kemur sú gagnrýni ekki bara frá aðgerðasinnum heldur einnig frönskum stjórnvöldum.

Mótmælin í París í dag koma í kjölfarið á aðgerðum við aðalfundi annarra stórfyrirtækja í Evrópu þar sem þrýst er á að þau dragi úr kolefnisfótspori sínu.

Forstjóri TotalEngergies, Patrick Pouyanne, sagðist harma að þurft hafi að grípa til svo róttækra aðgerða gegn mótmælendum. Lögreglan beitti táragasi eftir að mótmælendur höfðu ítrekað hunsað fyrirmæli hennar um að rýma svæðið og handtók hún fimm þeirra.

Sambærileg mótmæli áttu sér stað á ársfundi síðasta árs, sem varð til þess að sumir hluthafar gátu ekki sótt fundinn. Orkufyrirtæki hafa hagnast stórlega eftir innrás Rússa í Úkraínu og þess orkuskorts sem skapaðist í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert