Borgarflokkurinn leggur árar í bát

Ákvörðunin um að leggja niður Borgaraflokkinn var tekin í höfuðstöðvum …
Ákvörðunin um að leggja niður Borgaraflokkinn var tekin í höfuðstöðvum flokksins í Hong Kong í dag. AFP/Isaac Lawrence

Borgaraflokkurinn, einn helsti málsvari lýðræðis í Hong Kong, ákvað í dag að leggja upp laupana og leysa flokkinn upp. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að kínversk yfirvöld boluðu fulltrúum flokksins úr sveitarstjórnum á svæðinu og sóttu þá til saka fyrir brot á þjóðaröryggislögum.

Stöður í framkvæmdastjórn flokksins voru nýlega auglýstar en engar umsóknir bárust.

Lögmannaflokkurinn

Flokkurinn var stofnaður árið 2006 af lögfræðingum og öðrum frammámönnum í viðskiptalífi Hong Kong í því yfirskyni að efla lýðræði og borgaralegt samfélag í ríkinu og var gjarnan sagður gæta hagsmuna starfsmanna í fjármálageiranum og menntamanna.

Flokkurinn var einn af þeim fáu sem héldu velli eftir að öryggislögin tóku gildi árið 2020 í Hong Kong sem bönnuðu meðal annars uppreisnaráróður, landráð og sjálfstæðisumleitun í ríkinu. Lýðræðissinnar mótmæltu gildistöku laganna harkalega þegar þau voru kynnt.

Mesta fylgið árið 2012

30 af 31 stjórnarmanni flokksins kaus með tillögu þess efnis að flokkurinn yrði leystur upp í dag en áætlað er að það ferli muni taka um það bil mánuð.

Flokkurinn naut mestra vinsælda árið 2012 þegar Borgaraflokkurinn var sá næststærsti í stjórnarandstöðunni með sex menn á þingi. Á síðustu árum hafa margir frambjóðendur flokksins verið handteknir fyrir hvers kyns brot á öryggislögunum.

„Þegar öllum formsatriðum verður lokið mun Borgarflokkurinn hverfa af yfirborði jarðar,“ sagði Alan Leong, stjórnarformaður og einn stofnenda flokksins, í kveðjubréfi til flokksmanna.

Leong er samt vongóður um að markmið flokksins, að koma lýðræði á í Hong Kong, sé enn raunhæfur möguleiki.

„Sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig og þó Borgarflokkurinn hafi ekki enn náð sínu eina markmiði hefur allt sinn tíma.“

mbl.is