Opnaði dyrnar því honum fannst hann vera að kafna

Neyðarútgangurinn sem maðurinn opnaði.
Neyðarútgangurinn sem maðurinn opnaði. AFP

Kóreski maðurinn, sem opnaði neyðarútgang flugvélar Asiana-Airlines upp á gátt í miðju flugi, gæti átt tíu ára dóm yfir höfði. Maðurinn segist hafa verið að kafna í fluginu og þess vegna hafi hann viljað yfirgefa vélina í flýti.

„Honum fannst flugið vera að taka lengri tíma en það ætti að taka og fékk köfnunartilfinningu inni í farþegarýminu,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Suður-kóreskum lögregluþjóni.

Undir miklu álagi

Um 200 farþegar voru um borð í vélinni sem var í 200 metra hæð þegar maðurinn opnaði neyðarútganginn. 

Löggæsluyfirvöld yfirheyrðu manninn sem kvaðst vera undir miklu álagi og bar einnig fyrir sig að hann hafi nýlega verið rekinn frá störfum. Maðurinn er með hreint sakavottorð.

Í myndskeiði sem farþegar tóku upp og birtu á samfélagsmiðlum má sjá hvaða áhrif opnun hurðarinnar hefur á loftþrýsting í vélinni en miklir vindar blésu innan farþegarýmisins. Um tólf farþegar voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar en enginn hlaut alvarlega áverka.

„Það var mikil ringulreið í farþegarýminu og það virtist líða yfir fólkið sem sat nálægt hurðinni. Á meðan kölluðu flugþjónar eftir því hvort einhver læknir væri um borð,“ sagði einn farþegi í fluginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert