Lofsyngur loftvarnir Úkraínu

Selenskí forseti lofsamaði loftvarnir hers síns.
Selenskí forseti lofsamaði loftvarnir hers síns. AFP/Forsætisembætti Úkraínu

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, fór fögrum orðum um loftvarnir úkraínska hersins eftir drónaárásir Rússa á Kænugarð. Drónaárásirnar voru þær stærstu frá upphafi stríðs en Úkraínumönnum tókst að granda flestum þeirra. 

Þrátt fyrir það létust tveir í árásinni og nokkrir særðust. BBC greinir frá.

Á þriðjudagskvöld skutu Rússar urmul eldflauga að Kænugarði, og voru allar skotnar niður eða gerðar óvirkar af loftvarnarkerfum borgarinnar fyrra kvöldið. Var þar um að ræða átján eld- og stýriflaugar, sem skotið var með stuttu millibili úr nokkrum mismunandi áttum á borgina í því skyni að eldflaugarnar myndu yfirgnæfa loftvarnir hennar. Þess í stað var þeim öllum grandað, auk þess sem níu drónar voru einnig skotnir niður.

Næsta kvöld sendu Rússar 30 stýriflaugar af ýmsum gerðum og fjóra dróna á höfuðborgina, og voru 29 af 30 eldflaugum skotnar niður og allir drónarnir fjórir.

Rússar hafa sótt harðar að höfuðborg Úkraínu undanfarnar vikur. 

Myndin var tekin hinn 23. maí og sýnir Selenskí á …
Myndin var tekin hinn 23. maí og sýnir Selenskí á fundi með liðsforingjum í úkraínska hernum. AFP

„Þið eruð hetjur“

Þegar árásirnar voru gerðar voru borgarbúar í þann mund að búa sig undir hátíiðarhöld fyrir Kænugarðsdaginn og átti að fagna 1.500 ára afmæli borgarinnar. 

Árásin setti þær fyrirætlanir Úkraínumanna ekki út um þúfur og fögnuðu borgarbúar í skugga árásanna. 

„Í hvert skipti sem þið skjótið niur dróna og flaugar andstæðinganna, þá bjargið þið lífum. Þið eru hetjur,“ sagði Selenskí við her sinn. 

Hann bætti síðar við í ræðu sinni að hann væri þakklátur fyrir hverja einu og einustu manneskju sem tók þátt í aðgerðunum og gerðu þær mögulegar. 

mbl.is