Sveppir vaxa úr lofti íbúðar 4 manna fjölskyldu

Ástandið í íbúð Serenu og barna hennar er verulega slæmt, …
Ástandið í íbúð Serenu og barna hennar er verulega slæmt, eins og sjá má. Skjáskot/BBC

Þriggja barna móðir sem býr í leiguíbúð í Hackney í London segist ekki upplifa sig örugga á heimili sínu þar sem íbúðin sé mjög illa farin af raka, myglu og sprungum. Ástandið sé svo slæmt að sveppir vaxi úr sprungum í lofti íbúðarinnar.

Serena, móðirin sem um ræðir, segir í samtali við BBC að ýmis vandamál hafi komið upp í íbúðinni á þeim tíu árum sem hún hefur búið þar, en hún leigir hana af leigufélaginu Peabody.

Hún segir leigufélagið ekki hafa staðið sig í að gera nauðsynlegar úrbætur á húsnæðinu og nú upplifi hún sig ekki lengur örugga þar.

Í samtali við BBC biðst talsmaður leigufélagsins afsökunar á því hvað úrbætur hafa tekið langan tíma. Það sé skilningur á því að ástandið þyki óþægilegt. Til standi að taka út alla bygginguna svo hægt sé að meta hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Víða í íbúðinni má sjá augljós merki um raka.
Víða í íbúðinni má sjá augljós merki um raka. Skjáskot/BBC

Fylla upp í sprungur og plokka burt sveppi 

Serena segir að stöðugt fjölgi sprungum í lofti og veggjum og að heilsufar fjölskyldunnar fari versnandi. Bæði líkamleg og andleg heilsa sé orðin slæm. „Á einum tímapunkti voru farnir að vaxa sveppir úr loftinu, það lekur á baðherbergi og gangi og það eru flugur úti um allt.“

Nú sé komin stór sprunga í loftið í herbergi sonar hennar og augljós merki séu um sig. Peabody vilji hins vegar ekki viðurkenna það. Sonurinn þori ekki lengur að sofa í herberginu af ótta við að loftið falli ofan á hann.

Starfsmenn frá leigufélaginu hafi margoft komið og fyllt upp í sprungur, án þess að greina rót vandans og laga það sem er að. Ástandið haldi því bara áfram að versna.

„Það tekur marga mánuði, jafnvel ár að fá einhvern frá leigufélaginu til að koma og kíkja á vandamálið. Svo virðast þeir ekki hafa áhuga laga það sem virkilega er að, heldur gera við til bráðabirgða og hverfa svo aftur.“

Sveppirnir í loftinu hafi einfaldlega verið plokkaðir burt af starfsmanni og henni svo boðnar bætur í staðinn.

Skjáskot/BBC

Alltof margir búið við óviðunandi aðstæður 

Serena segist vilja komast í annað húsnæði en það óskir hennar um það hafi verið virtar að vettugi. Hún upplifi sig í fangelsi.

Mál hennar hefur náð til eyrna stjórnmálamanna, en Zoe Garbett, frambjóðandi Græningjaflokksins til borgarstjóra London, sagði í samtali við BBC að hún væri í áfalli eftir að hafa heyrt af sveppunum í loftinu heima hjá Serenu.

Hún sagði engan eiga að þurfa að búa við slíkar aðstæður. Alltof margir byggju í óviðunandi húsnæði og leigusalar, þar á meðal leigufélög, yrðu að hlusta á leigjendur sína, finna rót vandans og gera úrbætur.

Skjáskot/BBC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert