Danir senda milljarða króna til Úkraínu

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP/Jonathan Nackstrand

Ríkisstjórn Danmerkur hefur heitið því að veita 7,5 milljarða danskra króna til viðbótar í sjóð til aðstoðar fyrir Úkraínu, en það jafngildir rúmlega 156 milljörðum íslenskra króna. Sjóðnum var komið á fót í mars og þá lagðir til sjö milljarðar danskra króna.

„Stríðið í Úkraínu er á mjög viðkvæmum tímapunkti og alvarlegt ástand ríkir á vígvellinum. Því þarf Úkraína á öllum okkar stuðningi að halda,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í samtali við danska ríkisútvarpið, DR.

„Það er núna sem Úkraínumenn þurfa á vopnum okkar og stuðningi að halda, svo það er brýnt.“

Selenskí þakkar Dönum

Öðrum 10,4 milljörðum danskra króna hefur verið lofað fyrir árið 2024 og tók Frederiksen fram að ekkert bendi til þess að næsta ár verði ár friðar.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þakkaði Dönum í færslu á Twitter.

„Þetta stóra framlag mun styrkja enn frekar bardagagetu hersins í Úkraínu til skamms og meðallangs tíma,“ tísti hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert