Drónaárásir á báða bóga

Slökkviliðsmaður að störfum í Kænugarði á sunnudaginn eftir að eldur …
Slökkviliðsmaður að störfum í Kænugarði á sunnudaginn eftir að eldur kviknaði í kjölfar drónaárásar Rússa á borgina. AFP

Rússneska varnarmálaráðuneytið sakaði Úkraínu í morgun um hryðjuverkaárás og kvaðst hafa skotið niður átta úkraínska dróna sem hefði verið miðað á Moskvu, höfuðborg Rússlands.

„Í morgun efndu úkraínsk stjórnvöld til hryðjuverkárásar með drónum á skotmörk í Moskvu. Átta drónar voru notaðir í árásinni. Allir óvinadrónarnir voru skotnir niður,“ sagði ráðuneytið á samfélagsmiðlum.

Sérfræðingur skoðar brak úr dróna eftir drónaárás Rússa á Kænugarð …
Sérfræðingur skoðar brak úr dróna eftir drónaárás Rússa á Kænugarð á sunnudaginn. AFP/Sergei Supinsky

Úkraínski loftherinn segist á hinn bóginn hafa skotið niður 29 dróna af 31 sem beint var á landið nótt. Drónarnir voru aðallega skotnir niður yfir höfuðborginni Kænugarði og svæðinu þar í kring í nýjustu drónaárás Rússa, sem er sú þriðja á borgina síðastliðinn sólarhring. Að minnsta kosti einn fórst í árásinni. 

Borgarstjóri Moskvu, Sergei Sobyanin, sagði á Telegram að enginn hefði slasast alvarlega í borginni en að tvær byggingar hefðu skemmst lítillega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert