Einn lét lífið í skotárás í Stokkhólmi

Hátt í 20 börn voru á svæðinu þegar skothvellirnir heyrðust.
Hátt í 20 börn voru á svæðinu þegar skothvellirnir heyrðust. AFP

Einn lét lífið og annar slasaðist í skotárás í hverfinu Hagalund í Stokkhólmi í dag. Þetta staðfestir lögreglan í Stokkhólmi sem lokaði tímabundið fyrir samgöngur í hverfinu og leitar nú að árásarmanninum.

Skothvellir heyrðust rétt eftir klukkan 17 að staðartíma (kl. 15 að íslenskum tíma). Frá þessu greinir sænska ríkissjónvarpið en að sögn þess liggja engar upplýsingar fyrir um þann sem hleypti af skotunum.

Árásin átti sér stað utandyra og að sögn lögreglu fundust tveir slasaðir einstaklingar á vettvangi. Aðrir á vettvangi flúðu svæðið. Gríðarstór fjöldi lögreglumanna er við leit á vettvangi og ræðir við sjónarvotta.

„Hljómaði ekki eins og lítil skammbyssa“

Lögreglan hefur leitað á brautarpöllum og í lestarvögnum á svæðinu. Ekki er enn vitað hvort um sé að ræða einn sem hleypti af skotunum eða fleiri. Heyrnarvottur segist hafa heyrt 7-8 hvelli í röð.

„Það hljómaði ekki eins og lítil skammbyssa,“ segir vottur, sem hafði verið að ganga með barn sitt í hverfinu þegar hann heyrði hvellinn og fór rakleiðis af svæðinu.

mbl.is