Kínverjar grunaðir um stuld úr sögufrægum skipsflökum

Fallbyssuskot úr bresku skipunum HMS Prince of Wales og HMS …
Fallbyssuskot úr bresku skipunum HMS Prince of Wales og HMS Repulse fundust um borð í kínverska flutningsskipinu. Ljósmynd/Malasíska landhelgisgæslan

Malasísk stjórnvöld hafa lagt hald á kínverskt skip en áhöfn þess er grunuð um að hafa látið greipar sópa um tvö skips­flök úr síðari heims­styrj­öld­inni.

BBC greinir frá því að lagt hafi verið hald á flutningaskipið í gær fyrir að setja niður akkeri við skipsflökin í Suður-Kínahafi. Fallbyssuskot úr bresku skipunum HMS Prince of Wales og HMS Repulse fundust um borð í flutningaskipinu. 

Orr­ustu­skipinu HMS Prince of Wales og orr­ustu­beiti­skipinu HMS Repul­se var sokkið við strendur Malasíu fyrir meira en 80 árum og hvíla þar um 840 bresk­ir sjó­liðar í votri gröf. Flök­in eru viður­kennd­ar stríðsgraf­ir og því óheim­ilt að hrófla við þeim.

Kínverska flutningaskipið er skráð í borginni Fuzhou.
Kínverska flutningaskipið er skráð í borginni Fuzhou. Ljósmynd/Malasíska landhelgisgæslan

Eftirsóttur málmur

Í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytis Bretlands er ránið fordæmt og segir þar að um vanvirðingu við grafir sjóliðanna sé að ræða. 

Málmur skipsflakanna er eftirsóttur þar sem litla geislun er að finna í honum. Því er um að ræða sjaldgæfan og verðmætan málm til notkunar í lækninga- og vísindatækjum.

Kínverska flutningaskipið er skráð í borginni Fuzhou og voru 32 í áhöfn er malasíska landhelgisgæslan lagði hald á það.

mbl.is