Lögregla lét rannsaka græna litinn

Græni liturinn þykir afar áberandi.
Græni liturinn þykir afar áberandi. AFP

Yfirvöld í Feneyjum hafa gefið það út að græni liturinn sem íbúar urðu varir við í einu af síkjum borgarinnar á sunnudag væri skaðlaust litarefni.

Engar skýringar liggja fyrir um það hvers vegna efnið barst í vatnið.

Málið hefur valdið nokkru fjaðrafoki á Ítalíu þar sem umhverfissinnar hafa sakað umhverfisspilla um að menga vatnsfarveginn. Önnur tilgátan var sú að græna litinn megi rekja til loftlagsbreytinga.

Á móti hafa aðrir sakað hópa umhverfissinna um að lita síkin og apa þar með eftir gjörningi argentínska listamannsins Nicolás García Uriburu sem litaði síki í Feneyjum árið 1968 til að beina sjónum að umhverfisvernd. Umhverfishópar hafa þó keppst við að að bera af sér slíkar sakir.

Lögreglan rannsakaði málið og lét efnagreina sýni úr vatninu.

Niðurstaðan er sú að um er að ræða flúorkennt efni sem er án nokkurra eiturefna sem ekki er talið skaðlegt umhverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert