Nígeríumenn hamstra eldsneyti

Mikil örtröð er á bensínstöðvum landsins í kjölfar tilkynningar nýkjörins …
Mikil örtröð er á bensínstöðvum landsins í kjölfar tilkynningar nýkjörins forseta landsins, Bola Tinubu. AFP

Bola Tinubu, nýkjörinn forseti Nígeríu, tilkynnti í innsetningarræðu sinni í gær að hann myndi afnema niðurgreiðslur á eldsneyti. 

Eldsneyti hefur boðist almenningi með opinberum niðurgreiðslum í áratugi, en Tinubu minntist hvorki á tímaramma né fór nánar út í áform sín. Nýi forsetinn kallaði niðurgreiðslurnar óréttlætanlegar til frambúðar og sagði peningnum betur varið í uppbyggingu innviða og bætt lífskjör. 

Margir landsmenn hafa hins vegar lengi álitið niðurgreiðslurnar sem einu umbun ríkistjórnarinnar til almennings.

Nýkjörinn forseti Nígeríu, Bola Tinubu, tilkynnti að hann myndi afnema …
Nýkjörinn forseti Nígeríu, Bola Tinubu, tilkynnti að hann myndi afnema niðurgreiðslur á eldsneyti í landinu. AFP

Meira en 200% verðhækkun nú þegar

Breyting sem þessi mun hækka eldsneytiskostnað allverulega á tímum mikillar verðbólgu, en teymi forsetans gaf nánari útskýringar á áformunum í dag og sögðu stefnubreytinguna eiga að draga úr álagi á ríkissjóð.

Samkvæmt teyminu mun breytingin þó fyrst taka gildi í lok júní og því er óþarfi að þeirra sögn  að hamstra eldsneyti að svo stöddu. Bensínstöðvar landsins hafa varla haft við eftirspurn síðan forsetinn lauk ræðu sinni í gær, en margir borgarar óttast verðhækkanir og að eldsneyti klárist. 

Í kjölfar ræðu Tinubu hafa margar bensínstöðvar hækkað eldsneytisverð á meðan aðrar hafa stöðvað sölu. Íbúar Nígeríu hafa deilt myndböndum á netinu sem sýna meira en 200 prósenta verðhækkun á sumum bensínstöðvum.

Ríkisolíufélag Nígeríu, sem er eini innflytjandinn í landinu á eldsneytisvörum, fullvissaði almenning um að nægar birgðir væru til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert