Refsað fyrir að reyna að grafa undan Moldóvu

Viðurlögin sem sjömenningarnir mega eiga von á senda „mikilvæg pólitísk …
Viðurlögin sem sjömenningarnir mega eiga von á senda „mikilvæg pólitísk skilaboð sem merki um stuðning ESB við Moldóvu í núverandi erfiðu ástandi“. AFP/Daniel Mihailescu

Evrópusambandið beitti á þriðjudaginn refsiaðgerðum gegn sjö manns sem sakaðir voru um að reyna að grafa undan stöðugleika í Moldóvu, einu fátækasta ríki Evrópu, sem á landamæri að Úkraínu. 

Ákvörðunin var birt tveimur dögum áður en annar leiðtogafundur Evrópska stjórnmálabandalagsins (ECP) fer fram í Moldóvu á fimmtudaginn, en þar munu 47 þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnarleiðtogar koma saman. 

Moldóva er lítil þjóð með um það bil þrjár milljónir íbúa. Evrópubandalagið sagði að Moldóva væri „eitt af þeim löndum sem hafi orðið fyrir hvað mestum áhrifum vegna afleiðinga“ af innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022.

„Það eru alvarlegar, auknar og áframhaldandi tilraunir til að grafa undan stöðugleika í landinu,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, í yfirlýsingu sem Evrópusambandið sendi frá sér.

Viðurlögin sem sjömenningarnir mega eiga von á senda „mikilvæg pólitísk skilaboð sem merki um stuðning ESB við Moldóvu í núverandi erfiðu ástandi,“ að sögn Borrells, en þeim verður meinað að búa eða ferðast innan Evrópusambandsins, auk þess sem eignir þeirra innan Evrópusambandsins verða frystar. 

Er um að ræða stjórnmála- og kaupsýslumenn með moldóvskt eða rússneskt ríkisfang og tengjast sumir þeirra bankasvikamáli sem leiddi til mikils taps fyrir Moldóvu. Þá eru þeir sagðir hafa komið að skipulagningu ofbeldisfullra mótmæla, fjármálamisferlis, óheimils útflutnings fjármagns og stuðningi við verkefni rússnesku leyniþjónustunnar FSB, arftaka KGB

Óstöðugleiki í Moldóvu, sem hefur aukist verulega frá innrás Rússa í Úkraínu, er bein ógn við stöðugleika og öryggi ytri landamæra ESB samkvæmt tilkynningu frá ESB. 

mbl.is