Ráðgjafi Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu, hefur vísað á bug fullyrðingum Rússa um að Úkraína hafi staðið á bak við drónaárás á Moskvu, höfuðborg Rússlands.
„Við höfðum ekkert með hana að gera,” sagði Mikhaíló Pódoljak í morgunþætti í sjónvarpinu, að því er BBC greindi frá.
Bætti hann við í gríni að kannski hefðu rússnesku drónarnir sem var skotið á Úkraínu ákveðið að „snúa við”.
Úkraínska lögreglan segir að 33 ára kona hafi farist í drónaárás Rússa á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu. Þá hafi 13 til viðbótar særst, þar af níu í borginni.