Uggandi yfir eldflaugarskoti Norður-Kóreumanna

Suðurkóreyski herinn rannsakar eldflaugarskotið.
Suðurkóreyski herinn rannsakar eldflaugarskotið. AFP/Anthony Wallace

Norður-Kóreumenn skutu eldflaug á loft fyrr í kvöld, skömmu eftir að þeir greindu frá áformum sínum um að senda gervihnött í geiminn.

Suðurkóreski herinn varð var við eldflaugarskotið klukkan 06.29 að staðartíma og fengu íbúar Seúl í kjölfarið rýmingarboð með SMS-skeytum.

Í yfirlýsingu sem Norður-Kórea hafði áður gefið út var upplýst um áform um að senda gervihnött í geiminn fyrir 11. júní til að fylgjast með „hernaðarstarfsemi Bandaríkjamanna“.

Nágrannaríki Norður-Kóreu eru uggandi yfir eldflaugarskotinu og hafa Japanir sagst vera reiðubúnir að skjóta niður allt það sem ógnar öryggi þjóðarinnar. Íbúar á suðurhluta japönsku eyjunnar Okinawa fengu viðvörun senda en síðar var greint frá því að ekki væri um ógn að ræða.

Rannsakar suðurkóreski herinn nú hvort að eldflaugin hafi brotnað í loftinu eða brotlent skömmu eftir að hún hvarf af ratsjá hersins. Þá er einnig til rannsóknar hvort að eldflaugin hafi í raun verið að flytja gervihnött. 

Sérfræðingar segja Norður-Kóreumenn ekki vera með starfandi gervihnött í geimnum, þrátt fyrir fimm tilraunir frá árinu 1998.

Hrapaði í hafið 

Norður-Kóreumenn sendu svo frá sér tilkynningu skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma, þar sem þeir sögðu að eldflaugin hefði hrapað í hafið vestan við Kóreuskagann, þar sem seinna stig eldflaugarinnar hefði ekki náð að kveikja á sér. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is