Á 10 ár yfir höfði sér fyrir að brjóta klámlög

Ósæmandi hegðun túrista á almannafæri er talið vaxandi vandamál á …
Ósæmandi hegðun túrista á almannafæri er talið vaxandi vandamál á indónesísku eyjunni Balí.

Dönsk kona um fimmtugt hefur verið handtekin á Balí í Indónesíu fyrir að brjóta svokölluð „klámlög“ þar í landi. 

Lögreglan á Balí hefur myndskeið af samfélagsmiðlum í höndunum, en að sögn yfirlögreglustjóra má þar sjá konuna aftan á mótorhjóli þar sem hún lyftir pilsi sínu og sýnir kynfæri sín.

Myndbandið er talið vera frá desember 2022, en konan ferðaðist aftur til Indónesíu í apríl á þessu ári og var handtekin í kjölfarið. 

50 milljóna króna sekt

Klámlögin kveða á um að nekt, kynferðisleg misbeiting, kynmök eða klámfengin hegðun á almannafæri sé refsiverður glæpur. Einstaklingar sem brjóta þau geta átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisdóm og/eða 50 milljóna króna sekt. 

Danska utanríkisráðuneytið staðfesti handtöku konunnar við blaðamann danska miðilsins Politiken. Utanríkisráðuneytið kvaðst veita konunni ræðisaðstoð vegna handtökunnar, en gat ekki tjáð sig nánar um málið. 

Ósæmileg hegðun túrista vaxandi vandamál

Samkvæmt indónesíska miðlinum Jakarta Post, er það vaxandi vandamál í landinu að túristar virði ekki menningu og siði í landinu og sýni af sér ósæmandi hegðun á almannafæri. 

Anggiat Napitupulu, yfirmaður dómsmála- og mannréttindastofnunar Balí, kvaðst ánægður að heyra að túristar á Balí væru ekki yfir lög og reglur hafnir. 

mbl.is