Fundu 45 poka með líkamsleifum

Viðbragðsaðilar gátu flutt líkamsleifarnar með hjálp þyrlu.
Viðbragðsaðilar gátu flutt líkamsleifarnar með hjálp þyrlu. AFP

Yfirvöld í Mexíkó tilkynntu í dag að 45 pokar sem innihéldu líkamsleifar hafi fundist í gili rétt fyrir utan borgina Guadalajara í Mexíkó. Óvíst er hve mörg lík eru í öllum pokunum en rannsókn stendur yfir á svæðinu.

Fréttastofa ABC greinir frá. 

Í pokunum fundust líkamsleifar karlmanna og kvenna, en í tilkynningu frá skrifstofu héraðssaksóknara í Jalisco-héraði sagði að viðbragðsaðilar hafi unnið með þyrlu til að endurheimta líkamsleifar úr gilinu. Talið er að enn eigi eftir að ná fleiri líkamsleifum úr gilinu og verður þeirri vinnu haldið áfram á næstu dögum.

Líkamsleifarnar fundust eftir leit yfirvalda að sjö ungmennum sem hafði verið saknað síðan í síðustu viku. Óvíst er hvort að ungmennin sjö eru á meðal líkamsleifanna sem fundust.

110 þúsund manns er saknað í Mexíkó samkvæmt tölfræði frá yfirvöldum þar í landi.

Fjölmargir pokar með líkamsleifum fundust á svæðinu.
Fjölmargir pokar með líkamsleifum fundust á svæðinu. AFP
mbl.is