Örmagna verkafólk fær ekki að fara snemma á eftirlaun

Ríkisstjórn Mette Frederikssen hyggst afnema eftirlaunaréttindi verkafólks sem hefur slitið …
Ríkisstjórn Mette Frederikssen hyggst afnema eftirlaunaréttindi verkafólks sem hefur slitið sér út í líkamlegri vinnu. AFP

Danska ríkisstjórnin hyggst fylgja í fótspor franska forsetans Emmanuel Macron og breyta lögum um eftirlaunaaldur.

Breyting dönsku ríkisstjórnarinnar snýr þó ekki að því að hækka almennan eftirlaunaaldur, heldur að afnámi eftirlaunaréttinda verkafólks sem hefur slitið sér út með líkamlegri vinnu að því er fréttastofa DR greinir frá.

Fyrir hafa lög verið í gildi sem heimila fólki, sem hefur slitið sér út með líkamlegri vinnu, að fara sex árum fyrr á eftirlaun í stað þess að fara á örorkubætur eða annað slíkt.

Aðeins verkafólk sem hefur starfað 20 til 25 ár á vinnumarkaði, og er með læknisvottorð upp á skerta vinnugetu vegna líkamlegs starfs, hefur átt rétt á slíku fyrirkomulagi.  

Þurfa að starfa lengur eða sækja um bætur

Gangi frumvarpið í gegn þýddi það að launþegar, sem eru orðnir líkamlega lúnir af störfum sínum, þyrftu að vinna þremur árum lengur eða sækja um aðrar bætur frá ríkinu eins og örorku- eða atvinnuleysisbætur, geti þeir ekki unnið lengur. 

Danska ríkisstjórnin hefur aftur á móti lagt til að sameina það öðru fyrirkomulagi, sem kallast „Arne plús-eftirlaun“, en þá geta launþegar sótt um að fara á eftirlaun þremur árum fyrir hefðbundinn eftirlaunaaldur.

Það fyrirkomulag er þó bundið strangari skilyrðum og lægri útborgunum, en sérfræðingar hafa einnig bent á að margir geti einfaldlega ekki starfað í þrjú ár til viðbótar vegna líkamlegrar örmögnunar.

Tölur ríkistjórnarinnar tala gegn eigin frumvarpi

Frumvarpið hefur mætt talsverðri gagnrýni í Danmörku og þykir mörgum breytingin aðeins gera lífskjör bágstaddra enn verri.

Nýjar tölur frá atvinnumálaráðuneytinu þar í landi sýna að 81 prósent þeirra sem fara fyrr á eftirlaun geri það meira en þremur árum fyrir settan eftirlaunaaldur.

Danska ríkistjórnin einnig verið gagnrýnd fyrir ný sparnaðarúrræði sem bitna á almenningi. Til að mynda var nýlega samþykkt að kveðja kóngsbænadaginn, en hann var áður frídagur, til að fjármagna aukin framlög til varnarmála landsins.