Samþykktu hækkun skuldaþaks

Chuck Schumer ræðir við fjölmiðla eftir að samkomulagið var samþykkt.
Chuck Schumer ræðir við fjölmiðla eftir að samkomulagið var samþykkt. AFP/Anna Moneymaker

Þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings hafa samþykkt samkomulag um að hækka skuldaþak og þar af leiðandi afstýra greiðslufalli ríkissjóðs landsins.

Samkomulagið var samþykkt með 63 atkvæðum gegn 36, degi eftir að það sigldi í gegnum fulltrúadeild Bandaríkjaþings.  

„Mikill sigur“

Demókratinn Joe Biden Bandaríkjaforseti og Repúblikanar náðu samkomulagi um hækkun skuldaþaksins á dögunum.

„Enginn fær allt sem hann vill í samningaviðræðum, en þið getið verið fullviss um að þetta samkomulag er mikill sigur fyrir efnahaginn okkar og bandarísku þjóðina,” sagði Biden í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.

Hann kvaðst ætla að undirrita samkomulagið „eins fljótt og auðið er” og ávarpa þjóðina síðar í dag.

Joe Biden á lóð Hvíta hússins í gær.
Joe Biden á lóð Hvíta hússins í gær. AFP/Jim Watson

Leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, Chuck Schumer, bætti við að þjóðin gæti núna „andað léttar” eftir að hafa komið í veg fyrir mikið efnahagshrun.

Skuld­ir banda­ríska rík­is­ins hafa vaxið jafnt og þétt síðustu ára­tugi en aukn­ing­in hef­ur þó verið held­ur skarp­ari síðustu ár. Skuldaþak sjóðsins stend­ur nú í 31,4 bill­jón­um banda­ríkja­dala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert