Segir ferilinn vera búinn

Phillip Schofield.
Phillip Schofield. Ljósmynd/Wikipedia.org

Englendingurinn Phillip Schofield segist hafa „tapað öllu” og telur sig ekki eiga framtíð sem sjónvarpsmaður. 

Schofield hætti hjá sjónvarpsstöðinni ITV eftir að upp komst að hann hefði átt í ástarsambandi við ungan karlkyns samstarfsmann og logið til um það. 

Í sjónvarpsviðtali við BBC sagði Schofield feril sinn vera búinn. Hann tók fram að hann og samstarfsmaðurinn væru „ekki kærustupar” og að þeir hefðu aðeins átt fimm eða sex ástarfundi á nokkurra mánaða tímabili.

Engu að síður sagði hann ástarsambandið hafa verið „alvarleg mistök” og bætti við: „Ég hefði ekki átt að gera þetta”.

Spurningar hafa vaknað um hvort yfirmenn ITV hafi vitað af sambandinu og hvort rannsókn sjónvarpsstöðvarinnar á málinu hafi gengið nógu langt.

„Ég verð að tala um sjónvarp í þátíð, sem mér finnst mjög sorglegt. Ég hef tapað öllu.”

Schofield var enn kvæntur Stephanie Lowe þegar hann átti í ástarsambandinu. Þau skildu árið 2020 eftir að hann kom út úr skápnum.

mbl.is