Þrír ísraelskir hermenn skotnir til bana

Ísraelskir hermenn hugga hvorn annan eftir að þrír félagar þeirra …
Ísraelskir hermenn hugga hvorn annan eftir að þrír félagar þeirra létust í átökum við landamærin. AFP

Egypskur lögreglumaður varð þremur ísraelskum hermönnum að bana í dag. Tveir hermenn voru á vakt við herstöð við landamæri Ísrael og Egyptalands á Harif-fjalli nálægt bænum Mitzpe Ramon í Negev-eyðimörkinni þegar að lögreglumaður skaut þá báða til bana.

Ísraelskur hermaður kom að hermönnunum þar sem þeir lágu í blóði sínu og veitti þá lögreglumanninum eftirför ásamt öðrum hermönnum. Kom þá til átaka á milli ísraelsku hermannanna og lögreglumannsins þar sem þriðji ísraelski hermaðurinn lést og einn særðist.

Í tilkynningu frá ísraelska hernum kemur fram að árásamaðurinn hafi verið egypskur lögreglumaður og að hann hafi verið drepinn af ísraelskum hermönnum á landsvæði Ísrael. Rannsókn í samstarfi við egypska herinn stendur nú yfir.

Nítján og tuttugu ára

Talsmaður egypska hersins sagði í tilkynningu að lögreglumaðurinn hafi veitt fíkniefnasmyglurum eftirför yfir landamærin og þá hafi komið til skothríðar á milli lögreglumannsins og ísraelsku hermannanna.

Tveir af hermönnunum sem létust voru tuttugu ára karlmenn en einn hermannanna var nítján ára kona.

mbl.is