Dæmd fyrir að drepa börnin sín en sleppt úr haldi

Ástralska lögreglan að störfum.
Ástralska lögreglan að störfum. AFP/Martin Keep

Ástralskri konu sem var dæmd fyrir að drepa fjögur börn sín hefur verið sleppt úr haldi eftir 20 ár á bak við lás og slá.

Kathleen Folbigg var kölluð „versti kvenkyns fjöldamorðingi Ástralíu” eftir að hún var fangelsuð árið 2003.

Hún var fundin sek um þrjú morð og eitt manndráp.  

Saksóknarar sögðu að hún hefði kæft börnin, sem voru á milli níu vikna og þriggja ára þegar þau létust. Folbigg hélt því aftur á móti statt og stöðugt fram að hvert og eitt dauðsfall hefði verið af náttúrulegum orsökum.

Árið 2021 undirrituðu tugir ástralskra og erlendra vísindamanna undir plagg þar sem þeir hvöttu til þess að Folbigg yrði látin laus. Sögðu þeir að ný sönnunargögn bentu til þess að dauðsföll barnanna tengdust sjaldgæfum erfðafræðilegum stökkbreytingum eða meðfæddum göllum.

Michael Daley, ríkissaksóknari í Nýju Suður-Wales, sagði að Folbigg hefði verið sleppt lausri eftir rannsókn sem stóð yfir í eitt ár. Hún hefði leitt í ljós efasemdir um sekt hennar.

„Þetta hefur verið hræðileg þolraun fyrir alla sem tengjast málinu og ég vona að aðgerðir okkar í dag ljúki á einhvern hátt þessu 20 ára máli,” sagði hann við blaðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert