NATO sendir aukinn liðstyrk til Kósovó

Friðargæsluliðar NATO að störfum í Kósovó. Armend Nimani/
Friðargæsluliðar NATO að störfum í Kósovó. Armend Nimani/ AFP

Atlantshafsbandalagið, NATO, hefur sent aukinn liðstyrk til Kósovó, eftir að friðargæsluliðar þeirra höfðu lent í átökum við serbneska minnihlutann þar. Alls særðust 30 friðargæsluliðar í þeim átökum. Í kjölfarið tilkynnti NATO að 700 manns myndu bætast í liðstyrk þeirra þar.

Í þeim hópi eru meðal annars 500 tyrkneskir hermenn og verða þeir þar eins lengi og þurfa þykir samkvæmt yfirlýsingu frá NATO. Bandalagið hefur líka kallað út auka hersveitir á viðbúnaðarstig til þess að bæta við KFOR-friðargæslusveit bandalagsins í Kósovó sé frekari þörf á.

Rót núverandi skæra í Kósovó má rekja til þess að stjórnvöld í landinu skipuðu albanskættaða bæjarstjóra í mörg sveitarfélög þar sem Serbar eru í meirihluta. Flestir Serbar höfðu hunsað sveitastjórnarkosningarnar í aðdragandanum og hefur spennustigið verið hátt í byggðum þeirra. Upp úr sauð á mánudaginn var þegar sló í brýnu við friðargæsluliða NATO sem þurftu að þola grjótkast og mólotov-kokteila frá reiðum mótmælendum.

mbl.is