„Óvininum tókst ekki ætlunarverkið“

Volódímír Selenskí Úkraínuforseti ávarpar sameiginlegan blaðamannafund þeirra Alars Karis, forseta …
Volódímír Selenskí Úkraínuforseti ávarpar sameiginlegan blaðamannafund þeirra Alars Karis, forseta Eistlands, í kjölfar fundar þeirra í síðustu viku. AFP/Sergei Supinsky

Hermálagreinendur telja úkraínska herinn hafa verið að kanna styrkleika rússnesku varnarinnar með „stórsókn“ sinni í gær sem Rússar segjast hafa brotið á bak aftur. „Óvininum tókst ekki ætlunarverkið, hann náði engum árangri,“ segir rússneska varnarmálaráðuneytið í yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Telegram.

Haft er eftir rússneska stríðsfréttaritaranum Alexander Kots að hart hafi verið barist í Ugledar í suðurhluta Dónetsk-héraðsins en einnig norðar, í Soledar og hinni stríðshrjáðu borg Bakhmút þar sem hart hefur verið tekist á undanfarið. Segir Kots að Úkraínumenn hafi ekki enn beitt sínum mesta herstyrk í gagnsókninni.

Kardínáli til Kænugarðs

Einnig greina rússnesk yfirvöld frá því að „skemmdarverkahópur úkraínskra hryðjuverkamanna“ hafi reynt að komast yfir landamærin til Rússlands við Novaya Tavolsjanka. Hafi þar slegið í brýnu með þeim og rússneskum hermönnum sem lyktaði með því að úkraínski hópurinn hörfaði að sögn talsmanna rússneska hersins.

Úkraínsk yfirvöld neita því hins vegar staðfastlega að hópar á þeirra vegum hafi gert nokkrar tilraunir til að fara yfir rússnesku landamærin.

Í dag heimsækir ítalski kardínálinn Matteo Zuppi Kænugarð í umboði Frans páfa til að ræða gang mála í stríðinu við úkraínsk yfirvöld. Er gert ráð fyrir að heimsókn Zuppi standi yfir í tvo daga.

mbl.is