Þriggja ára palestínskur drengur skotinn til bana

Ísraelskir hermenn urðu þriggja ára palestínskum dreng að bana á …
Ísraelskir hermenn urðu þriggja ára palestínskum dreng að bana á Vesturbakkanum fyrir utan heimili hans. Myndin tengist ekki fréttinni beint. AFP

Þriggja ára gamall palestínskur drengur, Mohammed Tamimi, lést eftir að hann varð fyrir skoti í höfuðið frá ísraelskum hermönnum.

Mohammed og faðir hans voru á leið út af heim­ili sínu í Nabi Saleh-hverf­inu á Vest­ur­bakk­an­um, þegar skot­hríð braust út fyr­ir utan heim­ilið. Að sögn ísra­elskra her­manna var her­inn að elt­ast við tvo vopnaða menn, sem höfðu skotið á nær­liggj­andi landnámsbyggð Ísraelsmanna, Halamish, eða Neveh Tzuf.

Harma að hafa sært aðra en bar­daga­menn

Palestínski aðgerðasinn­inn og blaðamaður­inn Bilal Tamimi, sem særðist einnig í skotárás­inni, seg­ir ísra­elska her­inn hafa setið um bíl við inn­gang Nabi Saleh-hverf­is­ins, þar sem árásin átti sér stað, og skot­hríð hafi brot­ist út þegar bíll­inn nálgaðist. 

Í yf­ir­lýs­ingu frá ísra­elska hern­um seg­ir að her­inn harmi það að hafa sært aðra en bar­daga­menn­ina og að her­inn gerði allt í valdi sínu til að koma í veg fyr­ir slík at­vik.

Yngsti Palestínumaður­inn sem hef­ur lát­ist

Frá upp­hafi árs hafa 150 Palestínu­menn látið lífið af völd­um ísra­elskra her­sveita eða land­töku­manna á Vest­ur­bakk­an­um, Aust­ur-Jerúsalem eða Gasa-svæðinu, þar á meðal óbreytt­ir borg­ar­ar og víga­menn. Alls hafa 23 manns lát­ist á hlið Ísraelsmanna, þar á meðal tveir út­lend­ing­ar og einn palestínsk­ur verkamaður.

Á báðum hliðum eru börn meðal hinna látnu, en Mohammed Tamimi er yngsti Palestínumaður­inn sem hef­ur lát­ist á Vest­ur­bakk­an­um.

Um 700.000 land­nem­ar búa nú á Vest­ur­bakk­an­um og Aust­ur-Jerúsalem, en land­tök­ur eru ólög­leg­ar sam­kvæmt alþjóðalög­um. Ísraelsmenn þver­taka hins veg­ar fyr­ir ólög­mæti land­tök­unn­ar. 

mbl.is