Flugmaðurinn var mögulega meðvitundarlaus

Flugvélin brotlenti ná­lægt Geor­ge Washingt­on-þjóðgarðinum.
Flugvélin brotlenti ná­lægt Geor­ge Washingt­on-þjóðgarðinum. AFP/Erin Edgerton

Flugmaðurinn í flugvélinni sem brotlenti í Virginíu í Bandaríkjunum í gær virðist hafa verið meðvitundarlaus þegar slysið átti sér stað. Þetta herma heimildir CNN og Washington Post.

Orrustuflugmenn í F-16 herþotum Bandaríska hersins veittu vélinni eftirför eftir að vélinni var flogið inn fyrir lokaða lofthelgi yfir Washington DC borg.

Flugmaðurinn og þrír farþegar sem voru um borð fórust í slysinu.

Flugmenn F-16 þotnanna gátu lítið betur séð en að flugmaðurinn …
Flugmenn F-16 þotnanna gátu lítið betur séð en að flugmaðurinn væri meðvitundarlaus. AFP/Kevin GRUENWALD

Ekki var hægt að ná sambandi við flugmanninn síðustu tvær klukkustundir flugsins og ekki er vitað af hverju.

Richard Levy, fyrrum kafteinn og flugkennari, er þó með kenningu um það og segir í samtali við BBC að flugvélin hafi að öllum líkindum tapað loftþrýstingi í farþegarými sem hafi valdið súrefnisskorti hjá flugmanni og áhöfn.

Skýrslu að vænta í næstu viku

Flugvélin hrapaði til jarðar þegar eldsneytið kláraðist.

Rannsakendur vinna nú hörðum höndum að því að skilja nákvæmlega tildrög slyssins og má vænta skýrslu með fyrstu niðurstöðum í næstu viku. Lokaskýrsla er þó ekki væntanleg fyrr en eftir 1-2 ár.

Eins og fjallað var um í gær þá brá íbúum í brún er F-16 herþotur rufu hljóðmúrinn við eftirför á flugvélinni yfir Washington DC borg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert