„Heimurinn verður að bregðast við“

Selenskí á neyðarfundi sem var haldinn í morgun vegna sprengingarinnar.
Selenskí á neyðarfundi sem var haldinn í morgun vegna sprengingarinnar. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir heiminn verða að bregðast við árásinni sem var gerð á Kakhovka-stífluna í Úkraínu. Hann kennir Rússum um árásina sem hefur valdið miklum flóðum í nágrenninu.

„Heimurinn verður að bregðast við,” sagði Selenskí á samfélagsmiðlum og bætti við að Rússar hefðu sprengt stífluna innan frá laust fyrir klukkan þrjú í nótt að staðartíma, eða laust fyrir miðnætti að íslenskum tíma.

„Þetta er bara eitt af mörgum hryðjuverkum Rússa. Þetta er bara einn af mörgum stríðsglæpum Rússa,” bætti hann við og sakaði Rússa um að eyðileggingu umhverfis.

„Rússar eru í stríð við lífið, við náttúruna, við siðmenninguna,” sagði forsetinn.

„Rússar verða að yfirgefa úkraínskt landsvæði og það verður að láta þá svara til saka fyrir ódæðisverkin.”

Vatn flæddi úr uppistöðulóni inn í litla borg í Úkraínu og yfir 20 þorp eftir að stíflan var sprengd upp með þeim afleiðingum að fjöldi fólks hefur þurft að flýja heimili sín.

Vatn flæðir í gegnum stífluna úr uppistöðulóni.
Vatn flæðir í gegnum stífluna úr uppistöðulóni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert