Úkraínsk stjórnvöld segja að hættan á kjarnorkuslysi hafi aukist eftir að stíflan Nova Kakhovka í Kerson-héraði í Úkraínu skemmdist í sprengjuárás. Rússar neita því að hætta sé á ferðum.
Stíflan er um 150 kílómetrum frá kjarnorkuverinu Sapórisjía.
„Enn á ný er heimurinn á barmi kjarnorkuslyss vegna þess að kjarnorkuverið Sapórisjía missti kæliuppsprettuna sína. Þessi hætta vex núna hratt,“ sagði Mykhaylo Podolyak, aðstoðarmaður Úkraínuforseta.
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, segist aftur á móti ekki koma auga á „neina bráða ógn við kjarnorkuöryggi”.
Fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar að hún viti af þeim skemmdum sem urðu á stíflunni og að hún fylgist náið með málinu.
Stíflan er staðsett á ánni Dnípró sem útvegar vatn til að kæla kjarnorkuverið.
Yfirmaður Sapórisjía segir kjarnorkuverið ekki vera í neinni hættu. „Eins og staðan er núna er engin öryggisógn fyrir hendi í Sapórisjía-kjarnorkuverinu,“ sagði Yuri Chernichuk á Telegram.
„Vatnsmagnið í kæli-tjörninni hefur ekkert breyst,” sagði hann og bætti við að starfsmenn hefðu verið með fulla stjórn á ástandinu.
Charles Michel, formaður Evrópuráðsins, segir árásina á stífluna jafngilda stríðsglæpum og heitir því að Rússar verði látnir svara til saka.
„Í áfalli vegna þessarar árásar á Nova Kakhovka-stífluna sem á sér engin fordæmi. Eyðilegging innviða jafngildir stríðsglæpum og við munum láta Rússa og fylgisveina þeirra svara til saka,” skrifaði Michel á samfélagsmiðla.
Shocked by the unprecedented attack of the Nova Kakhovka dam.
— Charles Michel (@CharlesMichel) June 6, 2023
The destruction of civilian infrastructure clearly qualifies as a war crime - and we will hold Russia and its proxies accountable.