Úkraínumenn segja aukna hættu á kjarnorkuslysi

Rússneskur hermaður stendur vörð fyrir framan kjarnorkuverið Sapórisjía.
Rússneskur hermaður stendur vörð fyrir framan kjarnorkuverið Sapórisjía. AFP

Úkraínsk stjórnvöld segja að hættan á kjarnorkuslysi hafi aukist eftir að stíflan Nova Kakhovka í Kerson-héraði í Úkraínu skemmdist í sprengjuárás. Rússar neita því að hætta sé á ferðum.

Stíflan er um 150 kílómetrum frá kjarnorkuverinu Sapórisjía.

„Enn á ný er heimurinn á barmi kjarnorkuslyss vegna þess að kjarnorkuverið Sapórisjía missti kæliuppsprettuna sína. Þessi hætta vex núna hratt,“ sagði Mykhaylo Podolyak, aðstoðarmaður Úkraínuforseta.

Gervihnattamynd af stíflunni.
Gervihnattamynd af stíflunni. AFP

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin fylgist með

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, segist aftur á móti ekki koma auga á „neina bráða ógn við kjarnorkuöryggi”.

Fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar að hún viti af þeim skemmdum sem urðu á stíflunni og að hún fylgist náið með málinu.

Stíflan er staðsett á ánni Dnípró sem útvegar vatn til að kæla kjarnorkuverið.

Engin hætta á ferð, segja Rússar

Yfirmaður Sapórisjía segir kjarnorkuverið ekki vera í neinni hættu. „Eins og staðan er núna er engin öryggisógn fyrir hendi í Sapórisjía-kjarnorkuverinu,“ sagði Yuri Chernichuk á Telegram.

„Vatnsmagnið í kæli-tjörninni hefur ekkert breyst,” sagði hann og bætti við að starfsmenn hefðu verið með fulla stjórn á ástandinu.

Charles Michel.
Charles Michel. AFP/Vyacheslav Oseledko

Rússar munu svara til saka

Charles Michel, formaður Evrópuráðsins, segir árásina á stífluna jafngilda stríðsglæpum og heitir því að Rússar verði látnir svara til saka.

„Í áfalli vegna þessarar árásar á Nova Kakhovka-stífluna sem á sér engin fordæmi. Eyðilegging innviða jafngildir stríðsglæpum og við munum láta Rússa og fylgisveina þeirra svara til saka,” skrifaði Michel á samfélagsmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert