Þremur mánuðum áður en skemmdarverk voru unnin á Nord Stream-gasleiðslunum í september fékk ríkisstjórn Joe Bidens gögn frá evrópsku leyniþjónustunni þar sem upplýst var um áætlanir úkraínska hersins um að fremja skemmdarárás á leiðslunum. Þessu heldur Washington Post fram.
Er úkraínski herinn sagður hafa skipulagt árás með kafarateymi sem heyrði beint undir hæstráðanda Úkraínuhers.
Í umfjöllun Washington Post segir að Jack Teixeira hafi greint frá samskiptunum á spjallvettvanginum Discord. Teixeira starfaði áður fyrir njósnadeild þjóðvarðliðsins í Massachusetts en hefur verið ákærður fyrir að leka tugum bandarískra leyniskjala.
Tekið skal fram að úkraínsk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir ásakanir um aðild að skemmdarárásinni.
Evrópsk leyniþjónusta komst yfir gögnin um meintar áætlanir hersins og deildi með bandarísku leyniþjónustunni (CIA) í júní á síðasta ári. Fram að þessu hafa engin gögn komið fram sem bendla úkraínsk stjórnvöld við árásina með jafn beinum hætti.
Gögnin á evrópska leyniþjónustan að hafa fengið frá heimildarmanni í Úkraínu.
Samkvæmt heimildarmönnum Washington Post, sem vildu ekki koma fram undir nafni, var ekki hægt að staðfesta upplýsingar heimildarmanns evrópsku leyniþjónustunnar strax.
Bandaríska leyniþjónustan upplýsti þó stjórnvöld í Þýskalandi og annarra ríkja Evrópu um hvað hafði fram komið, í júní á síðasta ári.
Samkvæmt gögnum sem Washington Post hefur undir höndum hafa bandamenn Kænugarðs haft ástæðu til að gruna úkraínsk stjórnvöld um skemmdarverkið í liðlega ár. Grunurinn hefur einungis orðið sterkari á síðustu mánuðum þar sem rannsókn þýskra yfirvalda hefur leitt í ljós sönnunargögn sem styðja þá tilgátu að Úkraínumenn hafi verið að verki.
Embættismenn í þó nokkrum löndum hafa staðfest við Washington Post að upplýsingarnar sem birtust á Discord séu vissulega það sem evrópska leyniþjónustan sagði þeirri bandarísku, að því er fram kemur í grein miðilsins.
Þá segir einnig í umfjölluninni að miðillinn hafi samþykkt að birta ekki allar upplýsingarnar sem hann hefur undir höndum að beiðni embættismanna þar sem málið væri viðkvæmt og það gæti stefnt aðgerðum og heimildarmönnum í hættu.
Enn er allt á huldu um verknaðinn og eins og áður sagði hafa úkraínsk stjórnvöld þvertekið fyrir að standa að baki árásinni.
Þá hafa norrænu Skyggekrig þættirnir leitt í ljós grunsamlegar ferðir skipa á vegum rússneska sjóhersins í aðdraganda sprengingarinnar.