Guð hafi ekki lokið verki sínu í Banda­ríkjunum

Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP/Wade Vandervort

Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna hefur nú formlega tilkynnt framboð sitt til forseta. Hann segir „öfga-vinstrið“ og forseta landsins, Joe Biden, hafa veikt þjóðina innan sem utan landsteinanna.

Pence gegndi embætti varaforseta í forsetatíð Donald Trump árin 2017 til 2021. Þá er hann einnig fyrrverandi ríkisstjóri Indiana og fulltrúadeildarþingmaður. Pence er því nú kominn í beina baráttu við fyrrverandi samstarfsmann sinn um forsetastólinn.

Í framboðsmyndbandinu sem gefið var út í morgun, á 64 ára afmælisdegi Pence, segir hann þjóðina í vandræðum.

Ráðist sé á amerísk gildi

„Ameríski draumurinn er nú kraminn undir stjórnlausri verðbólgu, laun eru að lækka, kreppan er yfirvofandi, setið er um suðrænu landamærin okkar og óvinir frelsisins marsera um heiminn og það sem verra er, ráðist er á tímalaus amerísk gildi eins og aldrei fyrr,“ segir Pence.

Hann segir mögulegt að snúa þessu öllu við en til þess þurfi nýja leiðtoga. Þá trúi hann því að af þeim sem mikið er gefið sé mikils krafist. Vegna þessa sé hann, frammi fyrir fjölskyldu sinni og guði að tilkynna um framboð sitt til forseta.

„Við getum lífgað landið við, við getum varið þjóðina og tryggt landamærin. Við getum endurlífgað efnahaginn og komið þjóðinni aftur í átt að jafnvægi hvað varðar fjárhaginn, verndað frelsið og gefið Bandaríkjunum nýja byrjun,“ segir Pence.

Ræðir við Reagan og Pútín

Hér má sjá Pence og Pútín ræða saman árið 2018.
Hér má sjá Pence og Pútín ræða saman árið 2018. AFP/Alexei Druzhinin/Sputnik

Hann segir Bandaríkjamenn alltaf hafa svarað kallinu þegar á því hafi verið að halda og muni gera það á ný en nú þurfi stjórnvöld sem eru „jafn góð og fólkið okkar“ til þess að það takist.

„Ég trúi á bandarísku þjóðina og hef trú á því að guð hafi ekki lokið verki sínu í Bandaríkjunum. Saman getum við lífgað þetta land við og bestu dagar frábærustu þjóðar jarðar eru enn ókomnir. Guð blessi ykkur og guð blessi Bandaríkin,“ segir Pence að lokum.

Í myndbandinu má til dæmis sjá Pence með börnum, hermönnum, fjölskyldu sinni, verkamönnum, við þingstörf og að ræða við þjóðarleiðtoga eins og Ronald Reagan og Vladímír Pútín. Myndbandið má sjá hér að ofan.

mbl.is