Íslandsvinur í klandri vegna tölvupósta

Samsett mynd

Sultan Al Jaber, Íslandsvinur og nýskipaður forseti COP28, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, hefur komist í þann krappann vegna tölvupóstasamskipta við olíufélag Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Adnoc. Al Jaber gegnir starfi forstjóra hjá félaginu, en hann er einnig í heiðursráði Arctic Circle. 

Hlaut það töluverða gagnrýni á alþjóðavísu að olíufursti skyldi stýra loftslagsráðstefnu, en umræður ráðstefnunnar munu einmitt snúa að losun, meðal annars af völdum jarðefnaeldsneytis. Mörgum hefur því þótt skipun furstans í embættið óviðeigandi og hagsmunaárekstur. 

Hlaut ráðgjöf um fjölmiðlasamskipti

The Guardian greindi frá því í dag að tæknileg greining hefði sýnt fram á að skrifstofa COP28 deildi tölvuþjónum (e. computer server) með Adnoc. Ríkisolíufélagið hafi því haft aðgengi að tölvupóstasamskiptum skipuleggjenda loftslagsráðstefnunnar. 

Blaðið komst á snoðir um tengingu á milli Adnoc og COP28, þegar þau sendu fyrirspurn á skrifstofu COP28 um gagnrýni á Al Jaber og fengu svar sem var merkt „Adnoc flokkun: innri.“

Skipuleggjendur COP28 viðurkenndu síðar að hafa ráðfært sig við ríkisolíufyrirtækið um fyrirspurn the Guardian. 

Ólafur Ragnar Grímsson og Sultan Ahmed Al Jaber á Hringborði …
Ólafur Ragnar Grímsson og Sultan Ahmed Al Jaber á Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) Abu Dhabi, í janúar 2023.

Góðvinur fyrrverandi forseta

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og stjórnarformaður Arctic Circle ráðsins, þar sem Al Jaber situr í heiðursráði, bar furstanum góða söguna í viðtali við Morgunblaðið í janúar á þessu ári.

Sagði Ólafur Al Jaber vera samstarfsfélaga til margra ára og sagði gagnrýni á skipun Al Jabers í forsetasæti ráðstefnunnar, stafa af vanþekkingu á ferli furstans, sem hafi verið í þágu umhverfisins um árabil. 

Lýsti hann Al Jaber, sem miklum hugsjónarmanni, en hann hefur að sögn Ólafs heimsótt Ísland nokkrum sinnum. Sagði Ólafur að Al Jaber hafi tjáð sér að hann dreymdi um að Abú Dabí yrði „miðstöð veraldar í þágu hreinnar orku og umhverfismála“ og að allir á COP28 ráðstefnunni myndu læra af reynslu Íslendinga og hvernig það væri hægt á fáeinum áratugum að hverfa frá olíu alfarið yfir í hreina orku.

mbl.is