Ný sönnunargögn gætu leyst fjögur óupplýst mál

Lögreglan í Boston tók upp málin að nýju á síðasta …
Lögreglan í Boston tók upp málin að nýju á síðasta ári. AFP/Darren McCollester

Karlmaður á fertugsaldri, grunaður um ítrekuð kynferðisbrot, hefur verið ákærður eftir að lögreglan í Boston í Bandaríkjunum komst yfir DNA-sýni sem tengdi hann við fjögur mál sem hafa verið óupplýst í rúman áratug.

Matthew Nilo, sá grunaði, mætti fyrir dóm á mánudaginn þar sem málið var þingfest. Ákæran skiptist í sjö liði en hann er m.a. ákærður fyrir þrjár grófar nauðgar, tvö mannrán, líkamsárás og ásetning til nauðgunar.

Joseph Cataldo, lögmaður Nilo, segir skjólstæðing sinn vera saklausan. CNN greinir frá.

Málið tekið upp að nýju á síðasta ári 

Árásirnar fjórar voru framdar á tímabilinu frá ágúst árið 2007 til desember árið 2008. Að sögn saksóknara voru konurnar fjórar sem brotið var á á aldrinum 23 og 44 ára.

Lögreglan í Boston hóf að rannsaka málin að nýju á síðasta ári, að því er fram kom í yfirlýsingu ákæruvaldsins.

Við rannsókn málsins skoðaði lögreglan stóran gagnagrunn sem hafði að geyma DNA-sýni úr fjölda fólks og gat hún þannig afmarkað ákveðinn hóp fólks er gæti tengst málinu. 

DNA-sýni af glasi og áhöldum

Fyrr á þessu ári, þegar lögreglu fór að gruna að Nilo gæti verið maðurinn bak við árásirnar, hóf hún eftirlit með honum. Nilo átti þá heima í New Jersey en starfaði í New York-borg.

Fulltrúum alríkislögreglunnar (F.B.I.) tókst að safna DNA-sýni úr honum með því að komast yfir glas og áhöld sem hann notaði á starfsmannaviðburði, að sögn saksóknara.

DNA-sýnið úr Nilo samsvaraði sýni sem talið er að hafi verið úr árásarmanninum.

Þá greindu rannsakendur einnig DNA-sýni sem fannst á hanska eins brotaþolans sem hafði náð að pota í auga árásarmannsins er ráðist var á hana í desember árið 2008. Ekki tókst að tengja sýnið við manneskju þegar málið var upphaflega rannsakað.

„Frekari rannsóknir sýndu fram á að prófíll árásarmannsins hafi verið 314 sinnum líklegri að tilheyra Matthew Nilo heldur en nokkrum öðrum karlmanni,“ sagði Lynn Feigenbaum saksóknari í dómssal á mánudaginn.

Láta reyna á lögmæti sönnunargagna

Lögmaður Nilo gaf til kynna að hann ætlaði að láta reyna á lögmæti þess hvernig lögreglan aflaði sönnunargagnanna.

„Ef ríkið komst yfir DNA-sýni frá skjólstæðingi mínum án leitarheimildar þá munum við vissulega láta reyna á lögmæti þess fyrir dómi,“ sagði Cataldo.

Nilo var handtekinn í síðustu viku og er honum haldið gegn tryggingu sem nemur 500 þúsund bandaríkjadölum, eða um 70 milljónum íslenskra króna.

Ef tryggingargjaldið verður greitt þarf Nilo að ganga með ökklaband, vísa fram vegabréfi sínu, passa að hafa engin samskipti við brotaþolana og halda sig frá svæðinu þar sem árásirnar áttu sér stað, nema hann sé í fylgd með lögmanni sínum.

mbl.is