Sóttu rússneskan skipverja 500 sjómílum frá landi

Skipverjinn var sóttur á skipið Severny Polyus sem sat fast …
Skipverjinn var sóttur á skipið Severny Polyus sem sat fast á ísilögðu hafinu. AFP/Sysselmesteren Svalbard

Norskir þyrluflugmenn komu rússneskum skipverja til bjargar sem þurfti á bráðri læknisaðstoð að halda. Björgunarleiðangurinn er talið mikið afrek en maðurinn var um borð í rannsóknarskipinu Severny Polyus sem sat fast í ísilögðu hafi við Norðurpólinn.

Þyrlan sótti manninn í gærkvöldi að beiðni rússneskra yfirvalda en skipið var þá statt norðan við Svalbarða og í um 240 sjómílna fjarlægð frá Norðurpólnum.

Skipverjinn var þungt haldinn og ástandið talið það alvarlegt að ekki væri ráðlegt að meðhöndla hann um borð. H215 Super Puma þyrlan tók á loft frá Longyearbyen á Svalbarða, sem er í 500 sjómílna fjarlægð frá skipinu.

Minnstu smáatriði skipta máli

Rude Danielsen, talsmaður norsku björgunarmiðstöðvarinnar Bodo, sagði verkefnið sannarlega hafa reynt á þolmörk þyrlunnar en þetta væri með lengstu vegalengdum sem hægt væri að fara á slíku loftfari.

„Minnstu smáatriði hafa áhrif þegar að farið er svo langt, þyngd, vindur, veðurskilyrði, og þar fram eftir götum,“ sagi Danielsen.

Aðgerðin var framkvæmd í samræmi við ákvæði tvíhliðasamninga Rússa og Norðmanna um rannsóknir og björgun á norðurslóðunum. Er samningurinn virtur þrátt fyrir að samskipti milli þjóðanna hafi farið versnandi frá því að Rússar réðust inn í nágrannaríkið Úkraínu í febrúar á síðasta ári. 

Að sögn framleiðanda þyrlunnar á loftfarið að komast 866 kílómetra ef viðbótartankur fyrir eldsneyti er ekki meðferðis.

Þyrlan, með rússneska skipverjan um borð, lenti á Svalbarða klukkan tvö í nótt að staðartíma og var þá fluttur í sjúkravél sem flytur hann til Noregs.

mbl.is