Yfir 40 þúsund yfirgefa heimili sín

Þúsundir Úkraínumanna hafa þurft að flýja heimili sín eftir að Kakhovka-stíflan í Kerson-héraði var sprengd upp í gær með þeim afleiðingum að vatn flæddi inn í litla borg og yfir tugi þorpa. Óttast er að vatnsyfirborð muni hækka enn frekar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að eyðilegging stíflunnar muni hafa alvarlegar og víðtækar afleiðingar fyrir þúsundir manna. Ásakanir um hver beri ábyrgð á árásinni hafa gengið á víxl milli úkraínskra og rússneskra stjórnvalda, að því er BBC greinir frá.

Úkraínsk sjónvarpsstöð greindi frá því í morgun að flætt hefði yfir 23 svæði í landinu.

Úkraínskur hermaður aðstoðar heimamenn á flóðasvæði í Kerson-héraði.
Úkraínskur hermaður aðstoðar heimamenn á flóðasvæði í Kerson-héraði. AFP/Aleksey Filippov

Umfangið komi í ljós á næstu dögum

Í heildina hafa rúmlega 40 þúsund manns verið fluttir á brott, að sögn varasaksóknara Úkraínu, alls 17 þúsund á yfirráðasvæði Úkraínu vestan Dnípró-fljóts og 25 þúsund á yfirráðasvæði Rússa í austri.

Martin Griffiths, umsjónarmaður neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna, sagði að umfang hamfaranna ætti eftir að koma í ljós á næstu dögum.

Flætt hefur yfir 23 svæði í Úkraínu.
Flætt hefur yfir 23 svæði í Úkraínu. AFP/Aleksey Filippov

Griffiths ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna seint í gær og benti á að þúsundir manna í suðurhluta Úkraínu yrðu án heimila, matvæla og hreins vatns.

Heimamaðurinn Andriy, sem býr nálægt stíflunni, sagðist telja að Rússar vildu „drekkja“ borg sinni.

Óttast er að vatnsyfirborð muni hækka enn frekar.
Óttast er að vatnsyfirborð muni hækka enn frekar. AFP/Stringer
mbl.is