Þær líkamsleifar sem fundust í gili rétt fyrir utan borgina Guadalajara í Mexíkó í síðustu viku voru af átta einstaklingum sem allir unnu á sama vinnustað, að sögn stjórnvalda í landinu.
Greint var frá því í síðustu viku að 45 pokar hefðu fundist í 40 metra djúpu gili nálægt borginni Guadalajara í Jalisco-fylki. Lögreglan fann þá er hún leitaði átta einstaklinga sem var saknað, tveggja kvenna og sex manna.
Þau höfðu verið týnd frá því um 20. maí. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að krufning hafi leitt í ljós að líkamsleifarnar sem fundust séu af þeim.
Yfirvöld gáfu ekki upp hvernig þau létust.
Fólkið hvarf á mismunandi tíma en rannsókn sýnir að allir einstaklingar unnu í sama þjónustuveri. Upphafsrannsóknir gáfu til kynna að þjónustuverið sem þau unnu hjá gæti hafa tengst ólöglegri starfsemi.
Ættingjar hinna látnu höfðu gagnrýnt yfirvöld fyrir að vera of lengi við leit og of lengi að hefja rannsókn á þjónustuverinu.
Á umliðnum árum hafa pokar með líkamsleifum og ómerktar grafir fundist víða í Jalisco-fylki.
Stór eiturlyfjahringur sem kallar sig Nýju kynslóð Jalico er einnig starfræktur í fylkinu og er meðal stærstu glæpasamtaka í Mexíkó. Hafa liðsmenn hans átt í deilum við aðra eiturlyfjahringi í landinu.
110 þúsund manns er saknað í Mexíkó samkvæmt tölfræði frá yfirvöldum þar í landi.