Flóðin hafa áhrif á kjarnorkuver

Flóð hafa herjað á sunnanverða Úkraínu síðustu daga.
Flóð hafa herjað á sunnanverða Úkraínu síðustu daga. AFP

Úkraínsk stjórnvöld hafa kallað eftir því að Evrópulönd veiti þeim tvöfalt meiri raforku í kjöl­far þess að Kak­hovka-stífl­an brast eft­ir spreng­ingu í gær og olli flóðbylgju í héraðinu. Kjarnorkuver í nágrenninu nota vatn úr stíflunni til kælingar.

„Við báðum Evrópuríkin um að hækka núgildandi þak um öflun raforku úr einu gígavatti í tvö gígavött, sem er það sem rafveitunetið okkar þolir,“ sagði German Galústjenkó, orkumálaráðherra Úkraínu, í viðtali við fréttaveituna AFP í dag.

Galústjenkó var á ráðstefnu Alþjóðaorkuráðsins í París þegar hann lét þessi orð falla. Tilkynnt var í dag að magn vatns í kjarnorkuverinu hefði fallið undir það sem þarf til þess að kæla það.

Kjarnorkuverið öruggt „í bili“

Galústjenkó sagði enga ógn stafa af kjarnorkuverinu Saporisjía eins og er en þörf sé á eftirliti. Kjarnorkuverið er það stærsta í Evrópu og þarf á vatni úr stíflunni að halda til þess að kæla kjarnaofna sína.

Rafael Grossi, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðakjarn­orku­mála­stofn­un­ar­inn­ar, sagði í vikunni að vatnið sem enn er í kjarnorkuverinu dugi til þess að kæla ofnana „í bili“.

Um 600 ferkílómetrar af landi lentu undir flóðbylgjunni. Alþjóðaorkuráðið gerir ráð fyrir að um 20.000 heimili á svæðinu verði rafmagnslaus. Hins vegar segir kjarnorkumálastofnunin að það sé „engin skammtímaógn“ sem stafi af kjarnorkuverinu.

Búið er að slökkva á öllum sex kjarnaofnum í kjarnorkuverinu en nauðsynlegt er að kæla þá til þess að sjá til þess að ekkert kjarnorkuslys eigi sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert