Jodie Comer stöðvaði einleik vegna öndunarerfiðleika

Leikonan gekk af sviði eftir aðeins þrjár mínútur af sýningunni, …
Leikonan gekk af sviði eftir aðeins þrjár mínútur af sýningunni, vegna öndunarerfiðleika. AFP

„Ég get ekki andað þessu lofti að mér,“ sagði leikkonan Jodie Comer, þegar hún yfirgaf sviðið við einleik sinn, vegna öndunarerfiðleika tengdra skógareldum sem geisa í Norður-Ameríku. 

Appelsínugul þoka, sem minnir einna helst á heimsendasenu, hylur nú New York-borg, en hún stafar af skógareldum í Kanada. Comer leikur einleikinn Prima Facie á Broadway-sviðinu um þessar mundir, en leikkonan er einna þekktust fyrir leik sinn sem Villanelle í hinum vinsælu BBC-þáttum Killing Eve

Comer var hóf sýninguna 10 mínútum of seint í kvöld, en lauk henni skyndilega þremur mínútum seinna og yfirgaf sviðið vegna öndunarerfiðleika. Var áhorfendum tilkynnt að forfallaleikari myndi taka við af Comer eftir stutt hlé.

Talsmaður sýningarinnar segir Comer hafa þjáðst af öndunarerfiðleikum vegna lítilla loftgæða í New York, en frá og með deginum í dag er borgin með önnur minnstu loftgæði heims, á eftir Delí á Indlandi.

mbl.is