Pat Robertson látinn 93 ára gamall

Robertson hafði mikil áhrif á pólitískt landslag Bandaríkjanna og átti …
Robertson hafði mikil áhrif á pólitískt landslag Bandaríkjanna og átti stóran þátt í því að gera kristni að hornsteini Repúblikanaflokksins. AFP

Bandaríski sjónvarpsmaðurinn Pat Robertson lést á heimili sínu í Virginíuríki í dag, 93 ára að aldri.

Marion Gordon Robertson (yfirleitt kallaður Pat) fæddist árið 1930 í Virginíu. Hann var afar áhrifaríkur í bandarískri stjórnmálaumræðu á sinni lífstíð. Hann var meðal þeirra sem gerði kristni að hornsteini í flokkspólitík Repúblikanaflokksins með grasrótarsamtökunum Christian Coaliton.

Hann var þekktastur fyrir spjallþættina „The 700 Club“ sem hann kom á fót árið 1966. Var hann umsjónamaður þeirra í mörg ár og urðu þeir fljótt afar vinsælir meðal kristinna manna í Bandaríkjunum. Þeir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni Christian Broadcasting Network, sem Robertson stofnaði einnig.

„Hans helsta markmið í lífinu var að kynnast Jesú Kristi og fá þau forréttindi að kunngera öðrum Hann og Hans krafta,“ segir í tilkynningu frá sjónvarpsstöðinni, þar sem andlát hans var tilkynnt.

Talsmaður „hefðbundinnar“ fjölskyldu

Robertson var talsmaður trúarkenningarinnar um „heimsendi“ sem Esekíel spámaður spáði fyrir í Biblíunni um að heimurinn myndi farast til þess að verða að svokallaðri kristilegri paradís. Hann var einnig talsmaður gífurlega íhaldssamrar kristinnar trúar um „hefðbundnar“ fjölskyldur og hlaut mikla gagnrýni í gegnum tíðina úr hópum framsækinna fyrir fordóma sína í garð femínisma og hinseginleika, sem hann sagði eyðileggja Bandaríkin.

Hann naut mikils stuðnings frá Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta þegar Trump var í baráttu um forsetastólinn árið 2016. En Robertson sóttist sjálfur eftir forsetaembættinu árið 1988 en tapaði í forvalinu gegn George H. W. Bush, sem varð síðan forseti.

Hann sagði heiminn vera klofinn af átökum milli íslam og kristni. Benjamin Netanyahu hefur kallað Robertson „mjög góðan vin Ísraels og mjög góðan vin minn“.

mbl.is