Till Lindemann, aðalsöngvari þýsku þungarokkshljómsveitarinnar Rammstein, þvertekur fyrir allar ásakanir á hendur sér um kynferðislegt ofbeldi. Fjöldi kvenna hefur á síðustu dögum stigið fram og sakað söngvarann um að hafa byrlað þeim ólyfjan og síðan sængað hjá þeim.
„Fjöldi kvenna hefur borið fram alvarlega ásakanir á hendur skjólstæðingi okkar,“ segir í tilkynningu frá þýsku lögfræðistofunni Schetz Bergmann, sem sér um mál Lindemanns. „Þessar ásakanir eru án vafa ósannar.“
Í tilkynningunni kemur einnig fram að konurnar sem stigið hafa fram verði lögsóttar.
Írsk kona að nafni Shelby Lynn birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún sagði að Lindemann, sem nú er sextugur, hefði byrlað fyrir sér í Vilníus í Litháen í maí. Þá hafi hún farið í veislu baksviðs eftir tónleika hljómsveitarinnar.
Eftir að hún sagði frá sinni reynslu kom í ljós að margar aðrar konur höfðu svipaða sögu að segja.
Hljómsveitin sjálf hefur einnig neitað ásökununum en hefur nú þurft að aflýsa öllum veislum eftir tónleika í München í þessari viku. Stjórnvöld í Berlín hafa einnig skipað hljómsveitinni að aflýsa öllum veislum eftir tónleikahald í borginni í júlí og fjölskyldumálaráðherra Þýskalands hefur kallað eftir auknu öryggi á tónleikum.